Skilmálar þjónustu

Skilmálar þjónustu

Skilmálar um fjarskiptaþjónustu Vodafone

I. Almennt

 • 1. Eftirfarandi skilmálar gilda fyrir alla fjarskiptaþjónustu sem Vodafone (Fjarskipti hf.) veitir nema ef sérákvæði í sérstökum skilmálum eða samningum mæli á annan veg. Sá sem óskar eftir fjarskiptaþjónustu Vodafone (áskrifandi) skuldbindur sig við undirritun eða staðfestingu samnings um fjarskiptaþjónustu til að hlíta þeim kjörum og skilmálum sem Vodafone setur um notkun þjónustunnar. Ef Vodafone hefur ekki gert athugasemdir við samninginn innan tveggja vikna frá því að aðgangur að þjónustunni var veittur, er kominn á bindandi þjónustusamningur. Vodafone áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum og þjónustum. Breytingar eru kynntar á vefsíðunni vodafone.is með a.m.k. mánaðar fyrirvara áður en þær taka gildi.
 • 2. Símasambandi er venjulega ekki komið á við nokkra húseign, nema húseigandi leyfi endurgjaldslaust að koma fyrir strengjum og öðrum símabúnaði í húsi og á lóð og ber þeim sem óskar eftir þjónustunni, að sjá um að slíkt leyfi húseiganda fáist.
 • 3. Við undirritun samnings um símaþjónustu fær áskrifandi úthlutað símanúmeri nema ef um númeraflutning sé að ræða og þá heldur áskrifandi áður úthlutuðu númeri. Til þess getur komið að Vodafone þurfi nauðsynlega að breyta símanúmeri áskrifanda en mun þá leitast við að sem minnst óþægindi verði vegna þess. Áskrifandi þarf að óska sérstaklega eftir númeraleynd, læsingum og annarri aukaþjónustu sem í boði er.
 • 4. Venjulegur afgreiðslutími á þjónustubeiðnum, þ.m.t. beiðnum um nýjar tengingar við fastlínukerfi, rétthafabreytingar, viðtökur númera og aðra þjónustuþætti, svo sem beiðnum um viðgerðir, er ekki lengri en 14 dagar frá því að beiðni kom fram, nema óviðráðanleg atvik hamli framkvæmd.
 • 5. Ef áskrifandi vill framselja þjónustusamning sinn við Vodafone til þriðja aðila þarf að sækja um það skriflega. Ef ekkert er því til fyrirstöðu mun Vodafone samþykkja framsalið, en áður verður áskrifandi að greiða öll gjöld vegna notkunar á þjónustu til þess dags sem framsalið var samþykkt. Vodafone getur framselt réttindi og skyldur sínar, samkvæmt þjónustusamningi við áskrifanda, til þriðja aðila sem getur veitt sams konar fjarskiptaþjónustu.
 • 6. Vodafone ber ekki ábyrgð á því, þótt fjarskiptasamband rofni um stund. Vodafone mun þó ávallt leitast við að koma á fjarskiptasambandi að nýju og viðhalda gæðum þjónustunnar. Verði verulegur óþarfa dráttur af hálfu Vodafone á viðgerð getur áskrifandi krafist endurgreiðslu á mánaðargjaldi í hlutfalli við þann tíma sem samband er rofið. Vodafone ábyrgist ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna verða á rekstri fjarskiptanetsins, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna.
 • 7. Áskrifendum fjarskiptaþjónustu er skylt að fara vel með allan búnað í eigu Vodafone sem þeir hafa til afnota, og eru þeir bótaskyldir á öllu því, sem aflaga fer og stafar ekki af eðlilegu sliti, svo og öllu því, er glatast úr þeirra vörslu í þessum efnum. Vodafone áskilur sér rétt til að safna upplýsingum fjarskiptabúnaðar sem áskrifandi hefur fengið úthlutað hjá Vodafone, t.d. netbeina, myndlykla og IP síma, til að mæla gæði þjónustu sem og ástand búnaðar. Vodafone áskilur sér rétt til að gera þær uppfærslur og breytingar sem þörf er á til að tryggja besta virkni búnaðar áskrifanda.
 • 8. Ef í ljós kemur að notkun áskrifanda hefur verulega slæm áhrif á afgreiðslu fjarskiptaneta eða felur í sér misnotkun á búnaði og/eða þjónustu Vodafone getur félagið neyðst til að synja áskrifanda um fjarskiptaþjónustu um stundarsakir eða til frambúðar. Hið sama á við ef áskrifandi veldur, af ásettu ráði eða með vítaverðu gáleysi, skemmdum á fjarskiptaneti og/eða búnaði Vodafone. Hið sama á ennfremur við ef veittar eru rangar upplýsingar sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á gerð og gildi þjónustusamnings milli áskrifanda og Vodafone. Ef áskrifandi á sök á synjun á fjarskiptaþjónustu um stundarsakir verður hann að greiða áfram mánaðargjald til Vodafone. Skylda þessi fellur niður ef annar hvor aðili segir þjónustusamningum upp.
 • 9. Vodafone áskilur sér rétt til að fylgjast með heildarnotkun viðskiptavinar m.t.t. heildarmagns mínútna og/eða SMSa. Vodafone mun leitast við að vara áskrifanda við ef notkun hans breytist stórfellt á stuttum tíma án viðhlítandi skýringa og ef það kann að vekja grunsemdir. Fari notkun fram yfir hefðbundna notkun einstaklings/fyrirtækis á ákveðnu tímabili, t.d. dagsnotkun áskrifanda og líkur eru á að um misnotkun sé að ræða áskilur Vodafone sér rétt til að skoða með ítarlegum hætti þá fjarskiptanotkun og grípa til viðeigandi ráðstafana komi í ljós að um misnotkun sé að ræða að mati félagsins. Misnotkun getur m.a. falist í því að fjarskiptaþjónusta sé nýtt til tekjuöflunar fyrir þriðja aðila (sviksamleg háttsemi), framköllunar símtala eða skilaboða með sjálfvirkum hætti eða með aðstoð tölvu og/eða öðrum rafrænum búnaði. Ráðstafanir Vodafone til að bregðast við misnotkun felast í tafarlausri lokun fjarskiptaþjónustu áskrifanda.
 • 10. Áskrifanda er kunnugt um og samþykkir að Vodafone mun safna saman og vinna úr persónuupplýsingum í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000 á meðan áskrifandi er í viðskiptum hjá Vodafone eða allt að sex mánuðum frá því að gögnin urðu til. Gögn um fjarskiptanotkun sem nauðsynleg eru til reikningsgerðar fyrir áskrifendur og uppgjörs fyrir samtengingu má geyma þar til ekki er lengur hægt að vefengja reikning eða hann fyrnist. Upplýsingarnar sem um ræðir er almenn vinnsla úr fjarskiptagögnum í því skyni að innheimta þóknun fyrir veitta þjónustu, láta vita af miklum frávikum í notkun, bjóða nýjar áskriftarleiðir, þjónustu eða önnur tilboð til hagsbóta fyrir áskrifanda. Vinnsla gagna snýr einnig að vinnu til að uppfylla skýrsluþörf lögaðila, hvort sem það eru almenn yfirlit yfir reikninga eða nánari sundurliðun á fjarskiptaumferð í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000 og geymslu tímagagna í samræmi við fjarskiptalög nr. 81/2003. Nánari ákvæði um meðhöndlun persónuupplýsinga og gagna um fjarskiptanotkun er að finna í viðauka I við skilmála þessa, sem telst óaðskiljanlegur hluti skilmálanna.
 • 11. Vodafone áskilur sér rétt til þess að hafa samband við viðskiptavini sína í viðskiptalegum tilgangi, óháð skráningu þeirra í símaskrá. Viðskiptavinum er ávallt heimilt að afþakka slík samskipti af hálfu Vodafone.
 • 12. Vodafone áskilur sér rétt til að taka upp öll þjónustusímtöl til að geta sannreynt efni þeirra. Vodafone áskilur sér jafnframt rétt til þess að nýta upplýsingarnar ef upp kemur ágreiningur milli aðila eða í öðrum þeim tilvikum sem Vodafone telur nauðsynlegt. Öll hljóðritun símtala er í samræmi við ákvæði laga og reglna. Skoðun og afhending upptaka er aðeins heimil ákveðnum starfsmönnum Vodafone og yfirvaldi, s.s. lögreglu og eftirlitsstofnunum.
 • 13. Sé áskrifandi á þjónustuleið með inniföldu Reiki í Evrópu áskilur Vodafone sér rétt til að fylgjast með notkun áskrifanda m.t.t. gagnamagnsnotkunar og grípa til viðeigandi ráðstafana, t.d. viðbótargjaldtöku samkvæmt reglugerð evrópusambandsins um Reiki í Evrópu (Fair use policy), sé notkun hans óhæfileg og ósanngjörn að mati Vodafone. Dæmi um slíka notkun er notkun umfram tímabundin ferðalög viðskiptavina, t.d. ef viðskiptavinur hefur heimilisfesti á Íslandi eða notar símann sinn meira í útlöndum en hann gerir hér heima í að lágmarki fjóra mánuði í röð. Vodafone áskilur sér rétt til þess að loka á SIM-kort komist upp um ósamþykkta endursölu á númerum erlendis.

 

II. Greiðsluskilmálar

 • 1. Gjald fyrir fjarskiptaþjónustu er skv. gjaldskrám sem Vodafone gefur út á hverjum tíma og eru aðgengilegar á öllum sölustöðum Vodafone og á vefsíðunni vodafone.is. Allar breytingar á gjaldskrám sem fela í sér umtalsverðar hækkanir umfram verðlagsþróun mun Vodafone tilkynna áskrifendum með minnst eins mánaðar fyrirvara og getur áskrifandi þá sagt þjónustusamningnum upp með 30 daga fyrirvara.
 • 2. Áskrifandi skal greiða fyrir útskrift greiðsluseðla, svokallað seðilgjald, skv. gjaldskrám Vodafone nema hann óski þess að reikningur sé skuldfærður beint á greiðslukort og þá er enginn greiðsluseðill gefinn út. Áskrifandi greiðir fyrir birtingu kröfu í heimabanka skv. gjaldskrá.
 • 3. Áskrifandi ber fulla ábyrgð á greiðslum til Vodafone vegna notkunar sem á sér stað á þjónustu eða búnaði, óháð því hvort áskrifandi hafi heimilað notkunina eða ekki. Ef áskrifandi glatar fjarskiptabúnaði ber honum að tilkynna Vodafone um það tafarlaust. Áskrifandi er ábyrgur fyrir allri notkun búnaðarins og þjónustu honum tengdum, þar til slík tilkynning hefur borist Vodafone.
 • 4. Reikningstímabil fyrir notkun er frá fyrsta til síðasta dags hvers mánaðar. Reikningar eru sendir út með hæfilegum fyrirvara. Eindagi er 2. hvers mánaðar og gjalddagi 7 dögum áður. Sé reikningur greiddur eftir eindaga greiðir áskrifandi dráttarvexti frá gjaldaga til greiðsludags skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Vodafone er heimilt að synja áskrifanda um þjónustu þegar liðnir eru 30 dagar frá eindaga skuldar án þess að hún hafi verið greidd nema ef um er að ræða talsímaþjónustu. Um gjald fyrir útskrift reikninga vísast til gjaldskrár Vodafone. Þegar krafa hefur verið send frá Vodafone til innheimtufyrirtækis ber áskrifanda að snúa öllum sínum samskiptum og greiðslum til viðkomandi innheimtufyrirtækis.
 • 5. Heimilt er að loka fyrir talsímaþjónustu áskrifanda þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga/eindaga skuldar án þess að hún hafi verið greidd, þó að undangenginni skriflegri aðvörun a.m.k. mánuði fyrir lokun. Fyrsta mánuð eftir lokun talsímaþjónustu skal vera opið fyrir innhringingu í áskrifanda. Jafnframt skal áskrifandi geta hringt í neyðarnúmerið 112.
 • 6. Ef greiðsla fyrir fjarskiptaþjónustu hefur ekki borist innan sex mánaða frá gjalddaga/eindaga áskilur Vodafone sér rétt til þess að eyða gögnum viðskiptavina. Vodafone áskilur sér einnig rétt til að eyða gögnum, t.a.m. aukanetföngum, vegna þjónustu sem ekki er reikningsfært fyrir ef þjónustan hefur ekki verið notuð í 6 mánuði samfleytt.
 • 7. Ef áskrifandi hefur athugasemdir við reikninga verður hann að láta vita um þær án tafar og eigi síðar en á gjalddaga/eindaga. Að öðrum kosti telst reikningurinn samþykktur.

 

III. Uppsögn

 • 1. Báðir aðilar geta sagt upp þjónustusamningi með minnst eins mánaðar fyrirvara, nema þar sem sérákvæði gilda, og skal uppsögnin vera skrifleg og á þar til gerðu formi sem hægt að fá hjá Vodafone. Uppsögn miðast við upphaf nýs reikningstímabils, þann 1. hvers mánaðar. Öll vinnsla með fjarskiptaupplýsingar áskrifanda lýkur við uppsögn samnings.
 • 2. Áskrifendur á einstaklingsmarkaði eiga rétt á því að segja þjónustusamningi fyrirvaralaust upp án greiðslu skaðabóta þegar þeir fá tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á skilmálum.
 • 3. Við uppsögn á samningi ber áskrifanda að skila án tafar búnaði í eigu Vodafone. Vodafone getur þó heimilað áskrifanda að halda búnaði í ákveðin tíma gegn því að áskrifandi haldi áfram að borga leigu á búnaði. Ef áskrifandi getur ekki af einhverjum orsökum skilað búnaði er Vodafone heimilt að gjaldfæra áskrifanda um upphæð sem nemur verðmæti búnaðarins á þeim tíma sem hann var afhentur áskrifanda.
 • 4. Vodafone er heimilt bjóða upp á samninga þar sem áskrifandi skuldbindur sig í allt að sex mánuði. Ef áskrifandi segir upp slíkum samningi á samningstíma áskilur Vodafone sér rétt til að krefja áskrifanda um þau mánaðargjöld sem ógreidd eru af samningstímanum auk riftunargjalds.

IV. Önnur ákvæði

 • 1. Rísi upp ágreiningur um túlkun og skýringu á skilmálum þessum getur áskrifandi sent Vodafone kvörtun og eftir atvikum leitað til Póst og fjarskiptastofnunar.
 • 2. Áskrifandi er ábyrgur fyrir því að skilmálum þessum og lögum almennt sé fylgt. Um fjarskiptaþjónustu gilda lög um fjarskipti nr. 81/2003 ásamt síðari breytingum. Brot á skilmálum og reglum getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.
 • 3. Áskrifandi veitir Vodafone með undirskrift eða staðfestingu á samningi um fjarskiptaþjónustu umboð til að segja upp fjarskiptaþjónustu hjá öðrum þjónustuveitum.

Viðauki I

Meðhöndlun persónuupplýsinga og gagna um fjarskiptanotkun.

 

Meðhöndlun persónuupplýsinga

Ítrasta öryggis er gætt í meðferð persónuupplýsinga.

Viðauki þessi um meðhöndlun persónuupplýsinga útskýra hvernig Vodafone safnar, notar, miðlar og verndar persónuupplýsingar viðskiptavina sinna. Markmið skilmála þessara er að tryggja að meðhöndlun Vodafone á persónuupplýsingum sé í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, sbr. m.a. ákvæði laga nr. 81/2003 um fjarskipti og ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

Geymsla fjarskiptagagna

Vodafone geymir fjarskiptaumferðargögn, þ.m.t. gögn til reikningagerðar um símtöl, SMS/MMS og gagnaflutning sem fer um fjarskiptanet Vodafone, í allt sex mánuði samkvæmt lagaskyldu í 42.gr. fjarskiptalaga 81/2003, eftir þann tíma er gögnum eytt, eða þau gerð ópersónugreinanleg.

 

Úrvinnsla gagna

Vodafone vinnur úr gögnum viðskiptavina sinna á grundvelli samþykkis þeirra, sbr. 10. gr. meginmáls skilmála Vodafone og 42. gr. fjarskiptalaga 81/2003.

Með vinnslu er verið að vísa til aðgerðar eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn. Þannig er t.d. átt við söfnun og skráningu og undir það fellur m.a. flokkun, varðveisla, breyting, leit og miðlun.

Almenn vinnsla snýr að því að vinna úr gögnum um fjarskiptanotkun áskrifanda í því skyni að innheimta þóknun fyrir veitta þjónustu, láta vita af miklum frávikum í notkun, bjóða honum nýjar áskriftarleiðir, þjónustu eða önnur tilboð til hagsbóta fyrir hann. Úrvinnsla gagna fer fram á meðan viðskiptavinur er í viðskiptum við Vodafone eða allt að sex mánuðum frá því að gögnin urðu til. Samþykki fyrir úrvinnslu gagna er snýr að vinnslu í markaðslegum tilgangi getur viðskiptavinur afturkallað hvenær sem er á samningstimanum.

Almenn vinnsla snýr líka að því að uppfylla skýrsluþörf lögaðila, hvort sem það eru almenn yfirlit yfir reikninga eða nánari sundurliðun á fjarskiptaumferð í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000 og geymslutíma gagna í samræmi við fjarskiptalög nr. 81/2003.

 

Söfnun persónuupplýsinga

Í fjarskipta- og upplýsingakerfum Vodafone safnast saman upplýsingar um viðskiptavini þegar þeir:

 • Kaupa vöru eða þjónustu frá Vodafone eða umboðsmönnum Vodafone.
 • Skrá sig fyrir vöru eða þjónustu Vodafone (t.d. heimilisfang, símanúmer og netfang).
 • Skrá sig fyrir móttöku á upplýsingum eða upplýsingaþjónustu hjá Vodafone.
 • Óska eftir frekari upplýsingum, þjónustu eða bera fram ábendingar eða kvartanir. Taka þátt í leikjum, keppnum eða könnunum á vegum Vodafone.
 • Nota fjarskiptanet og þjónustu Vodafone.
 • Heimsækja og vafra um netsíður Vodafone eða tengdar síður.

Mögulega eru vistuð gögn um viðskiptavini Vodafone frá öðrum fyrirtækjum eða stofnunum, svo sem vegna símaskrárupplýsinga og lánstrausts.

Vodafone kann að nota svokölluð "cookies" og sambærilega tækni til þess að safna upplýsingum um hvernig viðskiptavinir Vodafone nota heimasíður Vodafone. Gerir þetta Vodafone kleift að hanna vefsíður sínar þannig að þær gagnist viðskiptavinum Vodafone sem best.

Persónulegar upplýsingar sem eru geymdar hjá Vodafone

Það fer eftir því um hvaða þjónustu ræðir en persónuupplýsingar sem geymdar eru í kerfum Vodafone geta verið, en þurfa ekki að takmarkast við, eftirfarandi: Nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og netfang.

Í kerfum Vodafone eru hvorki debetkortaupplýsingar né kreditkortaupplýsingar geymdar. Í báðum tilfellum kortanúmerum breytt í sýndarnúmer og þau vistuð í kerfum Vodafone.

Upplýsingar er varða sýndan áhuga viðskiptavinar á þjónustu eða upplýsingar um áhugamál ef viðskiptavinur hefur upplýst um slíkt eða þegar Vodafone metur það út frá notkun viðskiptavinar. Samskipti viðskiptavinar við Vodafone, svo sem símtöl/tölvupóstar/beiðnir til þjónustuvers/þjónustufulltrúa Vodafone eða önnur samskipti við fyrirtækið eða tengda aðila.

Upplýsingar um viðskipti viðskiptavinar við Vodafone, svo sem tegund þjónustu, vörukaup, reikningssögu, reikningsupphæðir, skuldastöðu, áfyllingarsögu og önnur atriði sem tengjast reikningi viðskiptavinar.

Símanúmer þeirra sem viðskiptavinur á samskipti við, þ.e. símtöl/sms/mms.

Netnotkun viðskiptavinar, þ.e. hvaða vefsíður viðskiptavinur fer inn á og hvernig viðskiptavinur notar heimasíður Vodafone.

Dagsetningar, tímasetningar og lengd/magn símtala/sms/mms/netnotkunar viðskiptavinar, ásamt nálgun á staðsetningum þegar þessi fjarskipti eiga sér stað.

Talskilaboð til viðskiptavina Vodafone í talhólfakerfi.

Kerfisupplýsingar sem tengjast viðskiptavini, svo sem tæknilegar merkjasendingar, bilanir/kerfisatvik og tímasetningar þeirra.

Hvernig persónulegar upplýsingar eru notaðar hjá Vodafone

Persónulegar upplýsingar um viðskiptavini eru mögulega notaðar í neðangreindum tilvikum:

 • Til að veita eða afhenda þá þjónustu og/eða vöru sem viðskiptavinur hefur keypt af Vodafone og veita viðskiptavini upplýsingar um stöðu á afhendingu vöru og framkvæmd þjónustu.
 • Til að upplýsa viðskiptavin um nýjar vörur Vodafone eða þjónustu.
 • Til að upplýsa viðskiptavin um breytingar á þjónustu eða viðskiptaskilmálum.
 • Til að bjóða viðskiptavini tilboð, nýja þjónustu eða þjónustubreytingu sem byggist á því hvernig viðskiptavinur notar þjónustu Vodafone, þ.m.t. hringi-/sms-/mms-/net-notkunarmynstur og staðsetningu.
 • Til að reikningsfæra viðskipti viðskiptavinar.
 • Til að svara fyrirspurnum viðskiptavinar.
 • Til að upplýsa um tilboð annarra fyrirtækja, sem Vodafone hefur hlutast til um að veiti viðskiptavinum Vodafone sérstök tilboð.
 • Til að greina hvernig viðskiptavinir Vodafone nota þjónustu og vörur Vodafone og í hve miklu magni, til þess m.a. að stuðla að auknu vöruframboði og hagkvæmni fyrirtækisins.
 • Til að framkvæma rannsóknir, tölfræðisamantektir og til þess að fylgjast með notkun tæknikerfa Vodafone - en án þess að upplýsingar séu persónugreinanlegar.
 • Við athugun á skuldastöðu viðskiptavinar, svo sem hjá aðilum sem halda utan um slíkar upplýsingar og hafa með höndum innheimtu krafna.
 • Til að vernda fjarskipta- og tæknikerfi Vodafone, svo sem til að stuðla að ekki komi til hnökra eða truflunar á fjarskiptaumferð, t.d. á álagstímum.
 • Til að vinna gegn ólögmætri háttsemi og til að bæta tjón.
 • Til þess að veita opinberum aðilum upplýsingar, þó aðeins í þeim tilvikum þar sem skylda hvílir á Vodafone að verða við slíkri beiðni lögum samkvæmt.

Vodafone getur í ákveðnum tilvikum afhent persónuupplýsingar til utanaðkomandi aðila. Persónugreinanlegar upplýsingar um viðskiptavini Vodafone kann að vera dreift til annarra fyrirtækja eða opinberra aðila, svo sem:

Til fyrirtækja sem vinna með Vodafone að framfylgni innheimtu, svo sem varðandi lánstraust eða skuldastöðu. Í þeim tilvikum er þó aðeins um að ræða reikningstengdar upplýsingar, svo sem um ákveðin viðskipti, skuldastöðu og skuldasögu. Komi til þessa undirgangast þessir aðilar trúnaðarskyldur vegna þeirra persónuupplýsinga sem veittar eru.

 • Til lögregluembætta og dómstóla.
 • Til Neyðarlínunnar (112).

Skilmálar um GSM Frelsi

Með virkjun Frelsiskortsins samþykkir notandinn að fara eftir eftirfarandi skilmálum Vodafone:

 

I. Gildistími inneignar

1. Almenn inneign

Virk inneign - 0-6 mánuðir
Hægt er að fylla á Frelsið beint úr símanum með greiðslukorti, með skafkortum, í heimabönkum, í hraðbönkum, á vef Vodafone eða með því að hringja í 1414. Eftir að Frelsið hefur verið hlaðið er inneignin virk í 6 mánuði frá síðasta rukkaða símtali/SMSi. Þú getur á því tímabili móttekið símtöl þó engin inneign sé eftir.

Óvirk inneign - 6-9 mánuðir
Ef að Frelsisnúmerið hefur ekkert verið notað undanfarna 6 mánuði er lokað fyrir hringingar frá númerinu. Þú getur þó tekið við símtölum í allt að 3 mánuði.

Ef fyllt er á Frelsið innan 3ja mánaða frá því lokað var fyrir úthringingar er hægt að endurheimta inneignina sem eftir var og opna fyrir úthringingar.

Töpuð inneign - 9-12 mánuðir
Ef ekki er fyllt á Frelsið innan 3ja mánaða frá því lokað var fyrir úthringingar tapast inneignin sem eftir var á Frelsinu og lokað er fyrir alla notkun.

Hægt er að virkja Frelsið með því að fylla á það innan 3ja mánaða frá því lokað var fyrir alla notkun en eldri inneign er fyrnd.

Ef ekki er fyllt á Frelsið innan 3ja mánaða frá því lokað var fyrir alla notkun áskilur Vodafone sér þann rétt að endurheimta símanúmerið og endurúthluta því.

2. Tilboðsinneignir

Tilboðsinneignir, gagnamagnspakkar og ávinningar þeirra gilda í 30 daga frá virkjun. Eftir 30 daga fyrnist inneignin, ef einhver er. Inneignir, gagnamagnspakkar og ávinningar tilboða er ekki hægt að færa á milli númera. Ef númerinu er sagt upp eða það flutt frá Vodafone fyrnast allar inneignir, gagnamagn og ávinningar.

3. Krakkafrelsi

Krakkafrelsi er í boði fyrir barn viðskiptavinar í Vodafone Gull með farsíma í áskrift. Frelsis númer fær 1.500 kr. inneign mánaðarlega. Krakkafrelsið er háð farsímanúmeri í áskrift, ef greiðandi farsíma áskriftar er í vanskilum hjá Vodafone, vanskil telst þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga skuldar, virkjast inneignin ekki.

II. Vinaafsláttur

Rafræn áfylling á Frelsi virkjar vinaafslátt í eitt GSM númer Vodafone. Með vinaafslætti getur notandi talað í allt að 60 mínútur á dag fyrir 0 kr./mín og sent 30 SMS á dag fyrir O kr. í eitt GSM númer Vodafone.

Vinaafslátturinn gildir í 30 daga frá áfyllingu. Ef ekki er fyllt aftur rafrænt á Frelsið innan 30 daga fellur afslátturinn niður.

Notandi þarf að skrá vinanúmer hjá Vodafone til að geta nýtt vinaafsláttinn. Ekki má breyta um vinanúmer fyrr en 30 dögum eftir að fyrra vinanúmer var skráð.

III. Frelsi í útlöndum

Hægt er að nota Frelsi í flestum þeim löndum sem Íslendingar ferðast til. Upplýsingar um í hvaða löndum er hægt að nota Frelsið er að finna á útlandasíðu frelsis.. Í þessum löndum eru símtöl gjaldfærð á rauntíma, þ.e. um leið og þau eiga sér stað.

Í öðrum löndum þarf að notandi að skrá sig í áskrift til þess að geta notað farsímann þar. Notandi greiðir fyrir notkunina eftir á. Notandi skráir sig í áskrift í verslunum Vodafone eða með því að hringja í Þjónustuver Vodafone. Undirskriftar er krafist, hún getur verið skrifleg eða rafræn. Í áskrift gilda almennir skilmálar um fjarskiptaþjónustu Vodafone.

Það er á ábyrgð notanda að kynna sér verðskrá og hvort hægt sé að nota Frelsið í þeim löndum sem notandi ferðast til.

IV. Önnur ákvæði

Vodafone áskilur sér rétt til að þess að hafa samband við viðskiptavini sína í viðskiptalegum tilgangi, óháð skráningu þeirra í símaskrá. Viðskiptavinum er ávallt heimilt að afþakka slík samskipti af hálfu Vodafone.

Skilmálar Internetþjónustu

 • 1. Eftirfarandi skilmálar tóku gildi 1. október 2015 og gilda um Internet-þjónustu Vodafone (Fjarskipti hf.) og er bæði áskrifendum að þjónustunni og öðrum notendum hennar skylt að hlíta þessum skilmálum. Að öðru leyti gilda skilmálar Vodafone um fjarskiptaþjónustu.
 • 2. Vodafone áskilur sér rétt til að færa þjónustu áskrifanda yfir á eigið kerfi af kerfi annara rekstraraðila.
 • 3. Vodafone lætur áskrifanda í té aðgang að Internet- og tölvupóstþjónustu sinni. Notanda er með öllu óheimilt að afhenda lykilorð sitt öðrum aðilum. Áskrifandi sem skráður er fyrir þjónustunni ber fulla ábyrgð á allri notkun henni tengdri. Eingöngu skráðir áskrifendur Vodafone geta nýtt sér aðgang að fríþjónustu. Áskrifendum Vodafone er með öllu óheimilt að nota aðgang sinn til að komast yfir upplýsingar um aðra notendur á nettengingu Vodafone, aðrar en þær sem veittar eru í opnum gagnagrunnum á Internetinu.
 • 4. Uppsetning á hugbúnaði er ávallt á ábyrgð áskrifanda og ber Vodafone því ekki ábyrgð á tjóni sem notkun eða uppsetning kann að valda.
 • 5. Vodafone ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að skapast vegna notkunar á tengingu við Internetið eða sambandsleysis við það. Áskrifandi ber sjálfur ábyrgð á afritatöku af þeim gögnum sem geymd eru á heimasvæði hans. Vodafone ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að valda.
 • 6. Áskrifanda er óheimilt að trufla, skerða eða á nokkurn hátt hafa áhrif á notkun annarra viðskiptavina, til dæmis með fjöldapóstsendingum. Áskrifanda er óheimilt að hýsa efni sem brýtur í bága við íslensk lög á heimasvæði sínu eða láta slíkt efni liggja á lausu á vefsvæðum. Áskrifendur skulu virða almennar umgengnisreglur sem settar eru á Internetinu.
 • 7. Fari áskrifandi yfir keypt niðurhal áskilur Vodafone sér rétt til að bæta við aukaniðurhali, allt að þrisvar sinnum, umfram það sem er innifalið í áskriftarleið hans. Gjald vegna aukaniðurhals er tilgreint í gildandi verðskrá hverju sinni. Ef niðurhal þriðja aukaniðurhalspakkans klárast áskilur Vodafone sér rétt til að hægja á nettengingunni. Ef upphal áskrifanda verður meira en innifalið niðurhal í áskriftarleið hans áskilur Vodafone sér rétt til að hægja á upphalinu út gildandi áskriftartímabil. Sé áskrifandi á þjónustuleið með ótakmörkuðu gagnamagni áskilur Vodafone sér rétt til að fylgjast með heildarnotkun áskrifanda m.t.t.. gagnamagnsnotkunar og grípa til viðeigandi ráðstafana, t.d. hægja á interneti, sé notkun hans óhæfileg að mati Vodafone.
 • 8. Vodafone tryggir ekki að tengihraði notanda sé sá sami og áskrift hans segir til um. Hraði tengingar er ávallt háður gæðum línu þeirrar er liggur til notanda, fjarlægð notanda frá símstöð, álags á línu og öðrum þáttum.
 • 9. Áskrifanda ber að tilkynna uppsögn á Internetþjónustu Vodafone (utan fríþjónustu) með bréfi þar sem fram kemur fullt nafn viðskiptavinar, kennitala, notandanafn og lykilorð, eða með tölvupósti frá netfangi áskrifanda. Uppsögn miðast við upphaf nýs reikningstímabils, þann 1. hvers mánaðar.
 • 10. Ef áskrifandi segir upp samningi á samningstíma áskilur Vodafone sér rétt til að krefja áskrifanda um riftunargjald sem samsvarar þremur mánaðargjöldum.
 • 11. Brot á ofangreindum skilmálum getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.

Skilmálar sjónvarpsdreifingar

Áskriftarskilmálar um sjónvarpsdreifingu Vodafone:

 • 1. Eftirfarandi skilmálar gilda fyrir aðgang að sjónvarpsþjónustu Vodafone (Fjarskipta hf.) Sjónvarpsþjónusta Vodafone veitir áskrifanda aðgang að sjónvarpsdreifikerfi sem og aðgang að annarri sjónvarpsþjónustu félagsins, t.d. Leiguna og Vodafone Play. Sá sem óskar eftir að gerast áskrifandi að sjónvarpsþjónustu Vodafone (áskrifandi) skuldbindur sig við undirritun eða staðfestingu samnings með rafrænum hætti (tölvupósti eða sms) til að hlíta skilmálum þessum sem og þeim kjörum sem um þjónustuna gilda. Við undirritun eða staðfestingu samnings er kominn á bindandi samningur milli aðila. Vodafone áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum, verðskrá og þjónustu félagsins en slíkar breytingar eru kynntar á vefsíðunni vodafone.is með a.m.k. mánaðar fyrirvara áður en þær taka gildi. Almennir fjarskiptaskilmálar Vodafone gilda þar sem ákvæðum skilmála þessa sleppir. Stangist ákvæði þeirra skilmála og þessara á skulu ákvæði skilmála þessa ganga framar.
 • 2. Skilmálar þessi gilda fyrir alla viðskiptavini Vodafone sem óskað hafa eftir aðgangi að sjónvarpsþjónustu Vodafone (áskrifanda) og Vodafone hefur veitt aðgang að með afhendingu búnaðar, sem og þá sem hana nýta (notanda). Aðgangur að sjónvarpsþjónustu Vodafone gerir viðskiptavini kleift að nálgast sjónvarpsefni sem efnisveitur bjóða. Vodafone sendir sjónvarpsmerki um gagnatengingar og veitir viðskiptavinum aðgang að henni í símainntökum. Framboð efnis er háð svæðum og samningi við efnisveitur. Vodafone ber enga ábyrgð á innihaldi þess efnis sem veittur er aðgangur að í sjónvarpsþjónustu Vodafone.
 • 3. Vodafone leigir áskrifanda nauðsynlegan búnað sem getur verið myndlykill eða aðgangskort (CAM kort), fjarstýring og tengisnúru gegn greiðslu samkvæmt verðskrá hveru sinni, birtri á vodafone.is. Áskrifanda er óheimilt að; gera eða láta gera nokkrar breytingar á búnaðinum (óheimil meðferð myndlykla er refsiverð skv. 28. gr. og 33. gr. útvarpslaga nr. 53/2000), leyfa öðrum að nota búnaðinn með því að selja, leigja, gefa eða láta hann af hendi með öðrum hætti, tengja búnaðinn við sjónvarpstæki utan skráðs notkunarstaðar hans (þó er áskrifanda heimilt að nota búnaðinn á tímabundnum dvalarstað, svo sem í sumarbústað, háð dreifileið) eða taka upp efni úr dagskrá einstakra miðla nema til einkaafnota á skráðum notkunarstað áskriftarbúnaðarins.
 • 4. Vodafone er eigandi búnaðarins og ber áskrifanda að gæta hans og fara vel með hann. Áskrifandi ber ábyrgð á öllu tjóni á þeim búnaði sem Vodafone lætur honum í té. Viðskiptavinur skal greiða allan kostnað vegna viðgerða á búnaði sem stafar af rangri eða slæmri meðferð á honum, í samræmi við reikning frá Vodafone þar um. Eyðileggist eða glatist (hvort sem honum er stolið eða hann glatist með öðrum hætti) áskriftarbúnaður í vörslu áskrifanda ber honum að greiða kostnaðarverð nýs búnaðar eins og það er á hverjum tíma. Greiðsla vegna ónýts eða glataðs búnaðar rýrir ekki eignarrétt Vodafone að búnaðinum. Sé búnaðinum stolið ber áskrifanda að tilkynna það tafarlaust til Vodafone og lögreglu.
 • 5. Starfsmenn félagsins og þjónustufulltrúar þess hafa rétt á að fá búnað áskrifanda afhentan til skoðunar og yfirferðar. Vodafone kann að vilja skipta út myndlykli sínum hjá áskrifanda eftir því sem að tækniþróun eða aðrar ástæður gefa tilefni til. 
 • 6. Áskrifandi getur óskað eftir að fá aukamyndlykil til notkunar á sama stað og sá myndlykill er sem hann hefur fyrir, bundið sömu skilyrðum og fram koma í 3. gr. skilmála þessa. Fjöldi aukamyndlykla er háður dreifileið.
 • 7. Vodafone ber ábyrgð á réttri virkni áskriftarbúnaðar. Áskrifandi skal þó á sinn kostnað koma áskriftarbúnaði sem þarfnast viðgerðar til Vodafone. Áskrifanda skal þá afhentur annar áskriftarbúnaður í stað þess búnaðar sem bilaður er a.m.k. á meðan viðgerð stendur. Innanhúslagnir eru á ábyrgð áskrifanda. Vodafone ber einungis ábyrgð á gæði myndmerkis í símainntak áskrifanda. Vodafone ber ekki ábyrgð á því, þótt útsending rofni um stund en mun í slíkum tilvikum ávallt leitast við að koma útsendingu í lag á ný. Vodafone ábyrgist ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á útsendingu eða annarra truflana sem kunna verða á sjónvarpsdreifikerfinu hvorki að hálfu félagsins né að hálfu þriðja aðila.
 • 8. Leigu búnaðar, áskrift og seðilgjald hvers mánaðar, hvort sem er fyrir myndlykil eða aukamyndlykil, ber áskrifanda að greiða samkvæmt þeirri gjaldskrá sem í gildi er á hverjum tíma hjá Vodafone. Uppsögn á myndlyklagjaldi, leigu á búnaði, er einungis framkvæmd með skilum á búnaði, sbr. 3. gr. skilmála þessa, til Vodafone. Greiðsla á áskriftargjaldi eftir móttöku búnaðar á heimili áskrifanda jafngildir undirskrift áskriftarsamnings. Við gerð nýs áskriftarsamnings fellur úr gildi eldri samningur um sama áskriftarbúnað sé hann til staðar. Vodafone er heimilt að bjóða upp á áskriftarsamninga þar sem áskrifandi skuldbindur sig í sex mánuði. Samningurinn er óuppsegjanlegur innan samningstímabilsins. Greidd áskrift er ekki afturkræf. Hætti áskrifandi að greiða áskrift eða leigu á búnaði er Vodafone heimilt að stöðva útsendingar á sjónvarpsþjónustu til áskrifanda. Áskrifandi skal greiða áskriftargjald til Vodafone, skv. verðskrá félagsins, auk kostnaðar sem kann að hljótast af innheimtu þess, þar til búnaði hefur verið skilað.
 • 9. Brjóti áskrifandi gegn áskriftarskilmálum þessum er Vodafone heimilt, án fyrirvara, að stöðva útsendingu á sjónvarpsþjónustu til hans og krefjast tafarlausra skila á áskriftarbúnaðinum og greiðslu skaðabóta.  Mál út af samningi þessum má reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
 • 10. Vodafone PLAY. Þjónustan er eingöngu til einkanota en ekki til opinberrar dreifingar. Opinber dreifing telst t.d. til notkunar á hótelum, hárgreiðslustofum, líkamsræktarstöðvum osfrv. Gildir ofangreint bæði um leigur á kvikmyndum sem og dreifingu á erlendum stöðvum. Séu skilmálar þessir brotnir áskilur Vodafone sér rétt til að stöðva þjónustuna án frekari viðvarana.

Áskriftarskilmálar þessi gilda frá 1. október 2015

Lénaskilmálar

 • 1. Fjarskipti hf. og undirritaður rétthafi gera með sér eftirfarandi samning um lénaviðskipti. Fjarskipti hf. munu tilkynna með hæfilegum fyrirvara um breytingar á skilmálum og þjónustuþáttum.
 • 2. Fjarskipti hf. bera ekki ábyrgð á tjóni sem kann að skapast vegna notkunar á tengingu við internetið eða sambandsleysis við það. Rétthafi ber sjálfur ábyrgð á afritatöku af þeim gögnum sem geymd eru á heimasvæði hans. Fjarskipti hf. bera ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að valda.
 • 3. Fyrsta árgjald og stofngjald léns greiða Fjarskipti hf. til Isnic og gjaldfærir á fyrsta reikning viðskiptavinar samkvæmt verðskrá Isnic hverju sinni.
 • 4. Með undirskrift sinni gefur viðskiptavinur, Fjarskiptum hf. umboð til að sækja um ofangreint lén til Isnic.
 • 5. Notkunarskilmálar Isnic gilda ávalt ef samsvarandi ákvæði í skilmálum Fjarskipta hf. teljast vægari.
 • 6. Uppsögn á léni ber að tilkynna til Isnic, sjá reglur www.isnic.is. Einnig ber að viðskiptavini segja upp hýsingu léns skriflega til Fjarskipta hf.

Vefhýsingaskilmálar

 • 1. Eigendur vefsvæða skulu uppfæra vefumsjónarkerfi reglulega.
 • 2. Vodafone áskilur sér rétt til þess að senda eigendum vefsvæða áminningu um uppfærslu uppfæri þeir kerfi sín ekki. Hafi kerfin ekki verið uppfærð innan 4 vikna frá áminningu áskilur Vodafone sér rétt til þess að framkvæma nauðsynlegar uppfærslur samkvæmt tímagjaldi á kostnað eiganda vefsvæðis. Ábyrgð á vef er ætíð í höndum eiganda vefsins þrátt fyrir að Vodafone taki að sér uppfærslu vefsvæðis. Sinni eigendur vefsvæða þessum ákvæðum ekki getur það valdið röskun á þjónustunni og niðri tíma.
 • 3. Notendanöfn skulu ekki innihalda „admin“ við uppsetningu og mælist Vodafone til þess að lykilorð séu að lágmarki 12-14 bókstafir og tölustafir í bland.
 • 4. Meti sérfræðingar Vodafone það svo að umferð á vefsvæði fari umfram það sem eðlilegt getur talist skal endurskoða þjónustuna og setja upp viðeigandi þjónustupakka.
 • 5. Ef innbrot á vefsvæði veldur því að aðrir vefir verði fyrir hnjaski ber eigandi vefsvæðisins sem brotist var inn á ábyrgð á því hnjaski. Rétthafi vefsvæðis er ábyrgur fyrir því að skilmálum þessum sé fylgt eftir. Sé skilmálum ekki fylgt eða þeir á einhvern hátt brotnir áskilur Vodafone sér rétt til þess að loka vefsvæði án frekari tafa. Með samþykki skilmála þessara staðfesta eigendur vefsvæða að þeir einir beri ábyrgð á hvers kyns beinu eða óbeinu tjóni sem þeir eða þriðju aðilar kunna að valda. Vodafone ábyrgist heldur ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna verða á rekstri fjarskiptanetsins, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna.
 • 6. Notendur skulu ætíð tengjast undir réttu auðkenni.
 • 7. Ekki er heimilt undir nokkrum kringumstæðum að vista efni á netþjónum sem ekki eru í samræmi við lög og reglur eða brjóta í bága við almennt velsæmi.
 • 8. Rétthafi vefsvæðis er ábyrgur fyrir því að skilmálum þessum sé fylgt eftir. Sé skilmálum ekki fylgt eða þeir á einhvern hátt brotnir áskilur Vodafone sér rétt til þess að loka vefsvæði án frekari tafa.

Skilmálar um viðgerðir farsíma

Skilmálar Vodafone vegna viðgerðarsíma

 • 1. Viðgerð tekur til umbeðinna viðgerða og hugbúnaðaruppfærslu sé þess þörf að mati tæknimanns. Við hugbúnaðaruppfærslu glatast gögn nema afritunar sé óskað. Viðgerðar tími er allt að tvær vikur.
 • 2. Ábyrgð á tæki gildir í tvö ár frá kaupdegi og tekur hún einungis til bilana sem rekja má til framleiðslugalla
 • 3. Sími er ekki í ábyrgð gegn högg- eða rakaskemmdum. Komi slíkar skemmdir í ljós og viðskiptavinur vill ekki viðgerð eða tækið óviðgerðarhæft þarf alltaf að greiða 4.200 kr. fyrir skoðun á tækinu.
 • 4. Ábyrgðarskírteini þess símtækis sem sent er í viðgerð þarf alltaf að fylgja með.
 • 5. Gögn verða einungis afrituð að beiðni viðskiptavinar og eftir því sem við verður komið tæknilega. Vodafone ber enga ábyrgð á gögnum, glatist þau við afritun eða með öðrum hætti. Afritun gagna kostar á bilinu 5.900-8.900 kr, verðskrá er mismunandi eftir verkstæðum.
 • 6. Sé tæki ekki sótt innan þriggja mánaða frá verklokum getur Vodafone ekki ábyrgst afhendingu þess.
 • 8. Vilji viðskiptavinur frá flýtimeðferð er greitt sérstaklega fyrir það, 5.900 kr.
 • 9. Vodafone ber enga ábyrgð á aukahlutum (t.d. hulstur eða minniskort) og því skulu þeir hlutir ekki fylgja tæki í viðgerð.

 

Skilmálar Vodafone vegna leigu/láns á síma

 • 1. Leigutaki hefur fengið að leigu/láni ofangreint símtæki sem er í eigu Fjarskipta. Leigutaka ber að skila tæki í sama ástandi og það er þegar það er afhent.
 • 2. Leigutaki er ábyrgur fyrir öllu tjóni sem verða kann á símtækinu á meðan leigutíma stendur.
 • 3. Leigutaka ber að skila leigu/lánstæki til Fjarskipta, ásamt hleðslutæki og hulstri ef það fylgdi með lánstæki, þegar tæki sem var í viðgerð er afhent.
 • 4. Ef leigutaki skilar ekki lánstæki eða fylgihlutum þess er tæki sem var í viðgerð ekki afhent nema leigutaki greiði andvirði þess sem vantar, skv. verðskrá leigusala.

Skilmálar fyrir „Mínar síður“ Vodafone

 • 1. Eftirfarandi skilmálar gilda fyrir „Mínar síður“, þjónustusíðu viðskiptavina Vodafone. Sá sem stofnar aðgang (áskrifandi) að „Mínum síðum“ skuldbindur sig til að hlíta þeim skilmálum sem Vodafone setur um notkun þjónustusíðunnar.
 • 2. Áskrifanda er einum heimilt að nota aðgang sinn að „Mínum síðum“. Honum er með öllu óheimilt að afhenda lykilorð sitt þriðja aðila til afnota. Afhendi áskrifandi þriðja aðila upplýsingar, lykilorð og/eða notendanafn sitt er áskrifandi að fullu ábyrgur fyrir slíkri afhendingu og afleiðingum hennar.
 • 3. Áskrifandi skal umgangast og hagnýta þær upplýsingar sem eru á þjónustusvæðinu í samræmi við fjarskiptalög nr. 81/2003, skilmála þessa sem og önnur lög, reglur og skilmála sem eiga við.
 • 4. Reikningsupplýsingar inn á Mínum síðum eru ekki rauntímaupplýsingar. Reikningsupphæð á útgefnum fjarskiptareikningi til viðskiptavina getur þar af leiðandi verið önnur en Mínar síður gefa til kynna á tilteknu tímabili. Útgefnir reikningar Vodafone sýna þá fjárhæð sem áskrifanda er ætlað að greiða fyrir þjónustu Vodafone. Upplýsingum um notkun á „Mínum síðum“ er aðeins ætlað að vera til viðmiðunar og upplýsingar fyrir áskrifendur. Vodafone ber ekki ábyrgð á því tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna notkunar á þjónustusíðunni „Mínar síður“.
 • 5. Vodafone ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili kann að valda viðskiptavinum í tengslum við notkun þeirra á „Mínum síðum“.
 • 6. Þar sem skilmálum þessum sleppir gilda skilmálar um fjarskiptaþjónustu Vodafone.

Almennir ábyrgðarskilmálar Vodafone

 • 1. Eftirfarandi skilmálar eru ábyrgðarskilmálar Fjarskipta hf. (Vodafone) sem gilda fyrir öll vöru- og þjónustukaup hjá félaginu. Við vörukaup skuldbindur kaupandi sig til að hlíta skilmálum þessum.
 • 2. Skilaréttur kaupanda af ónotaðri vöru er 30 dagar gegn framvísun ábyrgðarskírteinis. Vörunni þarf að skila í upprunalegum umbúðum ásamt öllum fylgihlutum. Innsigli umbúða má ekki vera rofið.
 • 3. Á keyptum vörum er tveggja ára ábyrgð. Ábyrgð þessi gildir frá kaupdegi vöru. Ef tæki hefur orðið fyrir högg- eða rakaskemmd fellur ábyrgð kaupanda úr gildi.
 • 4. Ef framleiðslugalli kemur í ljós innan við 7 dögum frá kaupdegi getur kaupandi fengið vörunni skipt út í verslun. Vörunni þarf að skila í upprunalegum umbúðum ásamt öllum fylgihlutum.
 • 5. Kaupandi skal tilkynna galla til Vodafone strax og hann verður hans var. Hafi verið átt við vöruna, t.d. tækið opnað, af kaupanda eða viðgerðaraðilum sem ekki starfa á vegum Vodafone eða framleiðanda, fellur ábyrgð kaupanda strax úr gildi.
 • 6. Ábyrgð á vöru tekur einungis til framleiðslugalla sem kemur fram á ábyrgðartíma. Ábyrgð felur ekki í sér að fá endurgreiddan viðgerðarkostnað ef bilun er utan ábyrgðar, t.d. ef bilun stafar af rangri notkun eða slæmri meðferð, högg- eða rakaskemmdum, rangri uppsetningu, slæmu viðhaldi, slysni eða óhöppum, náttúruhamförum, truflunum á rafkerfi hús eða hverfis o.s.frv.
 • 7. Óski kaupandi eftir viðgerð á bilaðri eða gallaðri vöru ber kaupanda að framvísa ábyrgðarskírteini vörunnar. Ef vara hefur orðið fyrir raka- eða höggskemmd er ekki hægt að taka tækið í ábyrgðarviðgerð.
 • 8. Komi til úrlausnar ábyrgðar áskilur Vodafone sér þann rétt til að bjóða eftir atvikum viðskiptavinum upp á viðgerð, afslátt, nýja vöru eða afturkalla kaupin. Í öllum tilvikum er fyrst kannaður möguleiki á viðgerð.
 • 9. Reynist raftæki ekki bilað eftir athugun eða ekki er um að ræða ábyrgðarviðgerðir greiðir kaupandi skoðunargjald í samræmi við verðskrá Vodafone.
 • 10. Vodafone ber ekki ábyrgð á gögnum sem vistuð eru á tæki eða hugbúnaði, nema bilunin stafi af vandamálum tengdum hugbúnaði vörunnar.
 • 11. Vodafone ber eingöngu ábyrgð á beinu tjóni kaupanda sem gera má ráð fyrir að sé bein afleiðing af galla á keyptri vöru. Vodafone ber ekki ábyrgð á óbeinu tjóni, þ.m.t. rekstrartaps eða tjóns sökum þess að ekki hefur tekist að uppfylla samning við þriðja aðila.
28. mars 2018

Meira gagnamagn í SMART farsímaáskrift Vodafone

Fyrirhuguð er breyting á SMART farsímaáskrift Vodafone frá og með 1. maí 2018. Breytingin felur í sér að innifalið gagnamagn í SMART farsímaáskrift er aukið og hefur sú breyting nú þegar tekið gildi. Gagnamagnsnotkun í farsímum hefur aukist talsvert síðustu misseri og er þessi breyting til þess ætluð að koma til móts við þá þróun.

 • SMART 1 GB er nú 5 GB
 • SMART 10 GB er nú 25 GB
 • SMART 25 GB er nú 50 GB

Sumarið er nú rétt handan við hornið með tilheyrandi ferðalögum og er snjallsíminn iðulega við höndina. Viðskiptavinir Vodafone með SMART farsímaáskrift eru því vel í stakk búnir með aukið gagnamagn og minnum við á Reiki í Evrópu (Roam like Home) sem felur í sér að innifalin notkun í farsímaþjónustunni þinni sem þú kaupir hjá Vodafone gildir í öllum löndum innan EU/EES. Það þýðir að þú getur hringt, sent SMS eða notað gagnamagnið eins og þú sért á Íslandi.

Samhliða auknu gagnamagni breytist verð á þjónustuleiðum. Nánari upplýsingar má finna hér.


22. mars 2018

Ótakmarkað gagnamagn til 1. maí

Vodafone gefur öllum internet viðskiptavinum sínum ótakmarkað gagnamagn til 1. maí. Það þýðir að viðskiptavinir geta notað heimatenginguna áhyggjulaust án þess að klára gagnamagnið út marsmánuð og allan apríl.


Allt gagnamagn talið

Þann 1. maí næstkomandi verða gerðar högunarbreytingar á talningu gagnamagns. Fram til þessa hefur Vodafone eingöngu mælt og rukkað fyrir erlent niðurhal. Frá og með 1. maí mun talning gagnamagns miðast við allt gagnamagn, bæði innlenda og erlenda gagnaumferð sem og upphal og niðurhal. Samtímis verður innifalið gagnamagn aukið verulega. Því munu viðskiptavinir vera með umtalsvert meira innifalið gagnamagn á sínum þjónustuleiðum á óbreyttum verðum. Viðskiptavinir geta séð hvernig sín þjónustuleið breytist hér.

 

1. mars 2018

Fyrirhugaðar eru verðbreytingar 1. apríl næstkomandi. Við hvetjum viðskiptavini til að kynna sér vöruframboð félagsins eða fá ráðgjöf frá þjónustufulltrúum okkar í gegnum Netspjall Vodafone eða í síma 1414.


Nýjar internetleiðir

Í byrjun febrúar kynnti Vodafone til leiks nýjar internetleiðir til heimila fyrir allar dreifileiðir, þ.e. ljósleiðara, ljósnet og ADSL. Allar þjónustuleiðirnar eru á mesta mögulega hraða sem er í boði fyrir heimili og er nú allt gagnamagn mælt sem er nýjung og ekki í boði á eldri þjónustuleiðum. Um er að ræða hagstæðar internetleiðir sem við hvetjum okkar viðskiptavini til að kynna sér nánar hér.

 

Enn betra þráðlaust net

Til viðbótar býðst nú viðskiptavinum í fyrsta skipti að leigja búnað sem er sérstaklega ætlaður til þess að bæta þráðlaust netsamband inn á heimilinu, fyrir aðeins 1.490 kr./mán. Um er að ræða aðgangspunkta sem dreifa WiFi merkinu lengra og hentar einstaklega vel þegar erfitt getur reynst að ná góðri WiFi dreifingu inn á heimilinu. Vettvangsþjónusta Vodafone ráðleggur viðskiptavinum varðandi staðsetningu og býður uppsetningu ásamt WiFi mælingu inn á heimilinu til þess að tryggja eins gott samband og kostur er á. Hafðu samband í gegnum Netspjall Vodafone eða með því að hringja í þjónustuver okkar í síma 1414, fyrir nánari upplýsingar.

 

Vodafone ONE

Við minnum á að viðskiptavinir sem eru með Internet og Farsímaþjónustu hjá Vodafone eiga þann kost að skrá sig í Vodafone ONE og njóta þannig bestu mögulegra kjara í formi ávinnings. Má þar nefna ávinning í formi auka gagnamagns fyrir farsíma, tvöfalt meira gagnamagns fyrir internet og ONE Traveller ferðapakkans sem gerir þér kleift að ferðast áhyggjulaus í fjölmörgum löndum víðsvegar um heim þar sem Reiki í Evrópu er ekki í boði.

 

Netföng á 0 kr. með Farsíma og Internetþjónustu

Vakin er athygli á því að allir Farsíma- og Internetviðskiptavinir geta nýtt sér Vefpóstþjónustu Vodafone þeim að kostnaðarlausu. Viðskiptavinir geta skráð allt að þrjú netföng þeim að kostnaðarlausu séu þeir annaðhvort með Farsíma eða Internetþjónustu hjá Vodafone. Hafðu samband í gegnum Netspjall Vodafone eða með því að hringja í þjónustuver okkar í síma 1414, fyrir nánari upplýsingar.

 

Stóraukið áhorf í Vodafone PLAY og Hopster slær í gegn

Úrval kvikmynda í áskriftarveitunni Vodafone PLAY fer sífellt vaxandi og horfðu viðskiptavinur sem aldrei fyrr yfir jólamánuðinn og fyrsta mánuð nýs árs. Á tímabilinu jókst áhorf á efni í Vodafone PLAY um rúmlega 200% milli ára og viljum við þakka góðar móttökur. Aukið áhorf má ekki síst rekja til barnaáskriftarveitunnar Hopster, sem fylgir Vodafone PLAY pökkunum, en þar býðst yngstu kynslóðinni aðgengi að vönduðu barnaefni með íslensku tali sem er hægt að horfa á í Hopster appinu og í sérstöku Hopster viðmóti í Vodafone Sjónvarpi.

 


Fyrirtækjaþjónusta

Breytingar á verðskrá fyrirtækja má nálgast hjá fyrirtækjaþjónustu á netfanginu firma@vodafone.is eða í síma 599 9500.