Samskipti og fræðsla

Rík þörf á vitundarvakningu

Sexting (að skiptast á nektarmyndum) meðal barna og unglinga er sífellt meira í umræðunni, enda getur það haft alvarlegar afleiðingar. Rík þörf er fyrir vitundarvakningu – og upplýstir foreldrar eru besta forvörnin. Ef ekkert er aðhafst gætu fleiri börn lent í því að vera ber það sem eftir er á netinu.

Hrelliklám (einnig nefnt hefndarklám) er angi af sama meiði, en það er þegar nektarmyndum er dreift án samþykkis þess sem myndirnar eru af. Myndbönd sem Vodafone hefur styrkt:

Myndin af mér

„Myndin af mér“ er hálftíma stuttmynd eða stuttþáttaröð fyrir börn tólf ára og eldri. Handritið er unnið upp úr frásögnum íslenskra unglinga um reynslu sína af stafrænu kynferðisofbeldi og er skrifað af Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur.
Ber það sem eftir er

Fyrirlestur Þórdísar Elvu Þórðardóttur um sexting, hefndarklám og netið var fluttur hjá 108 foreldrafélögum víðsvegar um landið árið 2015. 

Hér til hliðar getur þú horft á fyrirlesturinn í heild sinni.

 

 

 

Hvað er sexting?

Sexting er enskt orð sem samanstendur af orðunum „sexual“ og „texting“. Um er að ræða kynferðisleg smáskilaboð, oft ljósmyndir, sem sýna nekt eða eru með kynferðislegum undirtóni. Skilaboðin eru yfirleitt ætluð einni manneskju, þótt raunin sé sú að sexting myndir fari í mörgum tilvikum á flakk.

Hefurðu velt fyrir þér hversu líklegt það er að utanaðkomandi einstaklingur sjái nektarmyndir sem þú sendir?

Nýleg rannsókn meðal bandarískra unglinga sýnir að fjórði hver einstaklingur sem fær send sexting skilaboð áframsendir þau á einhvern annan – og þá getur myndin endað á netinu. Það er því gott að venja sig á að hugsa dæmið alltaf til enda áður en maður sendir myndir frá sér, hvort sem þær eru af manni sjálfum eða einhverjum öðrum.

Hvaða afleiðingar geta nektarmyndasendingar haft?

Rannsóknir sýna að næstum 90% af kynferðislegu efni sem sett er á netið fer á flakk. Þetta þýðir að ef nektarmynd ratar á netið eru miklar líkur á því að hún dreifist t.d. á klámsíður, skráarskiptasíður, spjallborð og víðar. Þá er ekki lengur hægt að eyða myndinni og hugsanlegt að hún verði aðgengileg á netinu um ókomna tíð.

Hefur einhver beðið þig að senda ögrandi mynd eða nektarmynd af þér?

Þú átt rétt á að taka ákvarðanir varðandi líkama þinn án þrýstings frá öðrum – sama á hvaða aldri þú ert. Ef þú ert yngri en 18 ára er jafnframt ólöglegt að senda þér kynferðislegt efni eða biðja þig um nektarmyndir af þér. Ef þú sendir einhverjum slíkar myndir af þér gæti viðtakandinn líka lent í vandræðum, því það er ólöglegt að taka á móti efni sem sýnir einstaklinga undir 18 ára aldri í kynferðislegu ljósi.

Hefur þú beðið einhvern að senda þér nektarmynd?

Með því að biðja um slíka mynd ert þú að fara fram á að hinn einstaklingurinn taki töluverða áhættu. Þótt þú hafir ekki í hyggju að áframsenda myndina gæti einhver brotist inn í símann/tölvuna þína og stolið myndinni, svo dæmi sé nefnt. Það er ekki hægt að tryggja 100% öryggi í þessum efnum.

Hefur þú látið einhverjum í té lykilorð að reikningum þínum (t.d. tölvupósti eða samfélagsmiðli)?

Öruggast er að segja engum lykilorðið þitt (að undanskildum foreldrum þínum ef þú ert yngri en 18 ára) til að tryggja að persónuupplýsingar um þig, eða þá sem þú þekkir, séu ekki misnotaðar eða dreift á netinu.

Að lokum – hvað finnst þér um sexting?

Gott er að mynda sér skoðun á hlutunum áður en maður tekur þátt í þeim.

Hvað er hrelliklám (hefndarklám)?

Hrelliklám eru ljós- eða hreyfimyndir sem sýna nekt og eru settar í dreifingu á netinu án samþykkis þess sem sést á myndunum. Sumar hrelliklámsmyndir eru settar á netið af einstaklingi í hefndarhug, til dæmis fyrrverandi maka. Sumar myndir eru afleiðing kúgunar, sumar eru hreinlega falsaðar og búnar til í myndvinnsluforritum, aðrar fara í dreifingu á netinu eftir að hafa verið stolið. Hver sem uppruninn er brýtur hrelliklám gegn friðhelgi og er gróf innrás í einkalíf þess sem fyrir því verður.

Vertu hluti af lausninni - leiðir til að sporna við hefndarklámi

Ekki taka þátt

Skaðinn sem hefndarklám veldur þolandanum felst í dreifingu á myndefnisins og aðgengileika þess á netinu. Að aðrir sjái myndir sem þeim voru ekki ætlaðar er gróf innrás í einkalíf og friðhelgi þolandans. Ef þú færð slíkt efni sent skaltu eyða því. Með því að taka ekki þátt í dreifingu eða söfnun hefndarkláms ert þú hluti af lausninni – í stað þess að vera hluti af vandamálinu.

Grín getur orðið að alvöru

Eitthvað sem er sett fram í gríni getur haft alvarlegar afleiðingar, til dæmis ef ljósmynd er breytt í myndvinnsluforriti þannig að hún sýni nekt eða hafi kynferðislegan undirtón. Fari slík mynd í dreifingu á netinu er ekki víst að aðrir átti sig á því að myndin sé fölsuð. Afleiðingarnar gætu orðið þær sömu fyrir manneskjuna sem sést á myndinni og fyrir aðra þolendur hefndarkláms.

Gulltrygging er ekki til

Engin rafræn gögn eru gulltryggð, jafnvel þótt þeim sé ekki deilt með neinum öðrum. Slyngir hakkarar geta brotist inn í síma, tölvur og pósthólf.

Allir geta orðið fyrir því að gleyma raftækjum sínum á glámbekk og þá er auðvelt að stela gögnum úr þeim. Einnig er hægt að vista og afrita myndir úr öppum eins og Snapchat, jafnvel þótt þær líti út fyrir að eyðast. Förum varlega við vistun gagna sem við viljum ekki að aðrir sjái, en munum þó að þegar gögnum er stolið liggur ábyrgðin alltaf hjá þeim sem framdi brotið – ekki hjá þeim sem varð fyrir því.

Aldurinn skiptir máli

Hafðu í huga að það getur varðað við lög að taka og birta kynferðislegar myndir, sérstaklega ef sá sem sést á myndinni er yngri en 18 ára – jafnvel þótt myndin sé af þér sjálfum/sjálfri. Nektarmyndir eða myndefni sem sýnir börn undir 18 í kynferðislegu ljósi er ólöglegt, bæði á Íslandi og samkvæmt alþjóðalögum. Slíkt hið sama gildir um dreifingu slíkra mynda, sem varðar við lög um barnaklám. Ef þú sendir slíkar myndir gæti það haft alvarlegar afleiðingar bæði fyrir þig og þann sem þú sendir myndefnið til.

Þú ræður!

Það er rangt að beita þig eða aðra þrýstingi um að sýna nekt. Allir ráða sjálfir yfir eigin líkama og eiga rétt á að ákveða hverjum þeir deila honum með, jafnt á netinu sem og annarsstaðar.

Hvað ef einhver setur nektarmynd af mér á netið?

Ef þú verður fyrir því að einhver setur nektarmynd af þér á netið án samþykkis þíns er um hefndarklám að ræða. Eðlilegt er að því fylgi erfiðar tilfinningar, svo sem reiði, skömm og vonleysi. Mundu að þú ert brotaþolinn í málinu. Sá sem dreifði myndinni ber sökina, ekki þú. Þér standa ýmis úrræði til boða:

  • Segðu einhverjum sem þú treystir frá atvikinu. Þú þarft ekki að þjást í einrúmi.

  • Ef þú ert 17 ára eða yngri ber að tilkynna málið til lögreglu. Dreifing nektarmynda af þér er lögbrot.

  • Ef þú ert í skóla og skólafélagar þínir eru að dreifa myndum af þér án samþykkis þíns er gott að skólayfirvöld séu látin vita af málinu. Samstillt átak er líklegra til að bera árangur.

  • Mundu að hjálparsími Rauða krossins, 1717, er opinn allan sólarhringinn. Þar er veittur sálrænn stuðningur og ráðgjöf til þeirra sem brotið hefur verið gegn á netinu.

  • Sama á hvaða aldri þú ert, þá er hefndarklám gróf innrás í friðhelgi einkalífs þíns. Dreifing klámefnis er auk þess ólögleg á Íslandi.

  • Verið er að vinna að sértækri löggjöf gegn hefndarklámi á Íslandi um þessar mundir. Löndum sem eru með sambærilega löggjöf fer sífellt fjölgandi enda mikilvægt að standa vörð um réttindi fólks bæði á netinu og annarsstaðar.