Atvinnutækifæri

Góð ráð fyrir atvinnuumsækjendur

Leiðbeiningar um gerð ferilskrár

Ferilskrá er oft fyrstu kynni atvinnurekenda af umsækjanda og því skiptir miklu máli að hún sé vönduð og gefi greinargóðar upplýsingar. Oft þarf atvinnurekandi að velja úr mörgum umsóknum og þá þarf ferilskráin þín standist samanburð. Skapast hefur sú venja að setja mynd í ferilskrána; þetta gerir hana enn persónulegri og auðveldar þeim sem eru að ráða í starfið að muna eftir þinni umsókn. Vönduð ferilskrá getur fært þig einu skrefi nær starfinu sem þú óskar þér. Fylgja má eftirfarandi 10 skrefum að gerð ferilskrár. 

Persónuupplýsingar. Hafðu nafn, kennitölu, netfang, heimilisfang og símanúmer efst á blaðinu svo auðvelt sé að hafa samband við þig.

Menntun. Nauðsynlegt er að fram komi nafn skólans, námsgrein og námsgráða svo og tímabilið sem námið var stundað. Ef námið er ólokið þarf að geta þess. Einnig getur verið gott að gefa smá lýsingu á lokaverkefnum eða áhugasvið í náminu. Mikilvægt er að raða í tímaröð og setja nýjustu upplýsingar efst.

Starfsreynsla. Greinið frá fyrri störfum, vinnustöðum og tímabil. Einnig getur verið gott að gefa örstutta starfslýsingu eða ábyrgðarlýsingu á fyrri störfum. Setjið upplýsingarnar í tímaröð með nýjustu upplýsingar efst.

Námskeið. Hér er gott að tilgreina öll námskeið og/eða fyrirlestra sem þú hefur sótt, hvenær og við hvaða skóla eða fyrirtæki.

Tölvuþekking. Tilgreindu hvaða forrit þú hefur þekkingu á og hvernig þú hefur notað þau í fyrri störfum.

Tungumálaþekking. Taktu fram hversu vel þú getir skrifað, lesið og skilið viðkomandi tungumál og hvort þú hafir þurft að nýta tungumálaþekkingu í fyrri störfum eða námi.

Meðmælendur. Tilgreindu nafn, starfsheiti og símanúmer hjá meðmælandum. Vertu viss um að símanúmerin séu rétt. Taktu fram hvort megi hafa samband við meðmælanda án þess að talað sé við þig fyrst, sérstaklega ef um núverandi vinnuveitanda er að ræða.

Útlit. Ekki hafa mikið skraut, liti eða mismunandi leturgerð. Leggðu frekar áherslu á að vanda stafsetningu, málfar og framsetningu upplýsinga. Reyndu að takmarka lengdina við 1-2 blaðsíður. Ef þú velur að hafa mynd, gæti verið góð fjárfesting að fara til atvinnuljósmyndara.

Annað. Einnig getur verið árangursríkt að setja inn upplýsingar um áhugamál, fjölskylduaðstæður, viðurkenningar, dvöl erlendis, þátttöku í félagslífi og framtíðaráform þín.

Yfirlestur. Fáðu einhvern til að lesa ferilskrána yfir til að fá annað álit.

 

Gangi þér vel!

Góð ráð fyrir atvinnuviðtal

  • Undirbúðu þig undir þær spurningar sem þú kannt að fá. Gefðu þér tíma fyrir viðtalið til að velta því fyrir þér hvers konar starfsmaður þú ert og hvaða reynslu eða eiginleikum þú býrð yfir, sem geta nýst þér í starfinu sem þú sækir um.
  • Kynntu þér fyrirtækið, vörur eða þjónustu þess eftir því sem við á.
  • Vertu snyrtilega klædd(ur) en ekki í of áberandi fötum. Sá/sú sem tekur viðtalið hefur meiri áhuga á þér sem starfsmanni en fötunum sem þú klæðist. Góð þumalputtaregla er að vera í þeim fötum sem þú býst við að hæfi starfinu sem þú sækir um.
  • Ekki vera með tyggjó, mat eða drykkjarföng í viðtalinu.
  • Taktu þétt um hendina á viðmælanda þínum, horfðu beint í augun á honum/henni og brostu bæði þegar þú kemur og þegar þú kveður.
  • Leyfðu atvinnurekanda að hafa frumkvæði að launaumræðu. Yfirleitt eru laun ekki rædd í fyrsta viðtali.
  • Sýndu áhuga á starfinu.
  • Spurðu um það sem þig langar að vita um starfið eða fyrirtækið.
  • Vertu jákvæð(ur), það er alltaf meira aðlaðandi. Sérstaklega skal forðast að vera neikvæður í garð fyrri vinnuveitenda.
  • Vertu þú sjálf(ur)! Sá/sú sem tekur viðtalið finnur ef þú ert að reyna að þykjast vera eitthvað annað en þér er eðlilegt. Hann/hún hefur jafn mikinn áhuga á því að kynnast þér sem einstaklingi eins og þeim verkefnum sem þú hefur sinnt.

Gangi þér vel!