Uppfærsla netbúnaðar vinnur gegn WiFi veikleika

Guðfinnur Sigurvinsson Guðfinnur Sigurvinsson
17.10.2017 13:44

Um helgina uppgötvaðist öryggisveikleiki á algengasta þráðlausa staðlinum, WPA1 og WPA2. Hann lýsir sér þannig að með einbeittum brotavilja er hægt að fylgjast með og stíga inn í umferð sem á sér stað á þráðlausa netinu. Til að þetta sé hægt þarf þriðji aðili að vera innan dreifisvæðis þráðlausa netsins, s.s. í grennd við heimili eða fyrirtæki. Hér er um að ræða Wifi samskipti en ekki 3G og 4G.

Mikilvægt er fyrir notendur að uppfæra fartölvur og snjalltæki til að vinna gegn þessum veikleika. Ekki hafa allir framleiðendur gefið út hugbúnaðaruppfærslur en tæknisvið Vodafone fylgist grannt með gangi mála og við höfum uppfært allan búnað frá UniFi sem er í umsýslu Vodafone. Kínverski tæknirisinn Huawei, sem er algengasti endabúnaðurinn frá Vodafone, hefur upplýst að fyrirtækið hefur yfirfarið sinn búnað og metur hann öruggan. 

Önnur tæki sem notendur hafa keypt af Vodafone eða annarsstaðar þurfa notendur sjálfir að uppfæra. Við viljum ítreka að mikilvægast er að öll tæki séu uppfærð og því nauðsynlegt að fylgjast vel með upplýsingum frá framleiðendum og uppfæra um leið og þær berast. Fyrir aðstoð er best að hafa samband við söluaðila eða framleiðanda tækjanna.