Tíu viðskiptahugmyndir á sviði ferðaþjónustu valdar til þátttöku í Startup Tourism

VodafoneVodafone
01.02.2017 11:04Tíu viðskiptahugmyndir hafa verið valdar til þátttöku í tíu vikna viðskiptahraðal sem hefst þann 16. febrúar n.k. Verkefnið er sérsniðið að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu og er ætlað að veita þeim faglega undirstöðu og hraða ferlinu sem þau fara í gegnum frá því að hugmynd fæðist þar til viðskipti taka að blómstra.

- Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall fyrir nýjar hugmyndir og fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu

- Viðskiptahraðallinn hefst þann 16. febrúar n.k. og er nú haldinn annað sinn

- Tíu teymi voru valin úr hópi 94 umsókna og fá aðstoð og stuðning yfir tíu vikna tímabil

- Um er að ræða samstarfsverkefni Icelandic Startups, Bláa Lónsins, Íslandsbanka, Isavia, Vodafone og Íslenska ferðaklasans

Alls bárust 94 viðskiptahugmyndir í Startup Tourism í ár. Tíu sprotafyrirtæki hafa verið valin til þátttöku í hraðlinum sem hefst þann 16. febrúar n.k. Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila innan ferðaþjónustunnar og annarra sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu.

Óskað var eftir eftir lausnum sem gætu fjölgað afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkt innviði greinarinnar og stuðlað að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring.

Bakhjarlar Startup Tourism eru Bláa Lónið, Íslandsbanki, Isavia og Vodafone. Verkefnið er í umsjón Icelandic Startups í samtarfi við Íslenska ferðaklasann.

Eftirtaldar tíu viðskiptahugmyndir taka þátt í Startup Tourism árið 2017;

  • Aurora Arctic Travel - Listræn norðurljósasýning innandyra
  • Deaf Iceland - Sérsniðin þjónusta og afþreying fyrir ferðamenn á táknmáli
  • Ferðasjáin - Leitarvél sem finnur draumaferðina út frá óskum og sérþörfum
  • Hælið, safn tilfinninganna - Setur um sögu berklanna á Kristnesi í Eyjafirði
  • IceYoga - Jógaævintýri á ferðalagi um landið
  • Laugarvatnshellar - Lifandi innsýn í manngerða hella sem eitt sinn voru heimili
  • Regnbogasafnið í Reykjavík - Einstök upplifun ljóss og lita á mærum myndlistar og vísinda
  • Sigló Ski Lodge - Áfangastaður og miðstöð fyrir náttúruunnendur á Norðurlandi
  • Sólvangur Horse Center - Einstök og fjölbreytt upplifun á sönnum íslenskum hestabúgarði
  • SWAGL - Smáforrit sem veitir aðgang að persónulegri þjónustu sem auðveldar verslun í ókunnu landi