Vegna fyrirspurnar Stundarinnar um búnað Vodafone á Úlfarsfelli

VodafoneVodafone
29.12.2015 11:26

Í kjölfarið á uppsetningu útvarpssenda í bráðabirgðaaðstöðu á Úlfarsfelli gerðu Geislavarnir mælingar á styrk útvarpsbylgna þar. Niðurstöður mælinganna voru að styrkurinn væri innan marka fyrir starfsmenn en yfir mörkum fyrir almenning næst mastrinu. Í kjölfarið var strax brugðist við og girðing reist til að afmarka svæðið samkvæmt ábendingum þeirra, svo ekki færi á milli mála að um er að ræða fjarskiptasvæði. Geislavarnir staðfestu í kjölfarið að girðingin fullnægði kröfum þeirra um umbúnað á svæðinu.
 
Eftir því sem höfuðborgarsvæðið hefur þanist út þrengir stöðugt að eldri sendastöðum útvarps líkt og á Vatnsenda. Einnig var sendastöðinni á Rjúpnahæð lokað fyrir nokkrum árum og þar er nú komin íbúabyggð. Viðunandi sendastaðir fyrir útsendingar FM senda hafa því verið í óvissu um nokkurt skeið. Þróun byggðar hefur einnig þýtt að gömlu sendastaðirnir ná ekki að dreifa útvarpsmerkjum til nýrri hverfa eins vel og hægt er að gera á Úlfarsfelli. Þá mun uppbygging nýs sendastaðar á Úlfarsfelli bæta útvarpsskilyrðin suður með sjó og upp á Akranes enda stendur Úlfarsfell mun hærra en gömlu sendastaðirnir. Daglega nýtir stór hluti höfuðborgarbúa sér núverandi útsendingar frá Úlfarsfelli enda um að ræða ókeypis almannaþjónustu með skilgreint og mikilvægt öryggishlutverk.
 
Fyrir liggur beiðni Vodafone hjá borgaryfirvöldum um að fá að reisa mastur á Úlfarsfelli sem bíður samþykktar.  Það mastur myndi færa útvarpssendingar ofar frá jörðu en þær eru í dag og um leið draga enn frekar úr styrk þeirra á jörðu niðri næst mastrinu. 
 
Rétt að halda til haga að spurt er um styrk útvarpsbylgna en ekki geislavirkni sem Geislavarnir mældu við sendastöð Vodafone á Úlfarsfelli. Engin geislavirkni fylgir starfrækslu útvarpssenda.