Póst- og fjarskiptastofnun vísar kröfu Símans frá en tekur meint brot á fjölmiðlalögum til ítarlegrar rannsóknar í sérstöku máli

VodafoneVodafone
18.12.2015 13:14

Með ákvörðun sem birt var Vodafone fyrr í dag er vísað frá kröfu Símans hf., um að PFS skeri úr því hvort þjónustuþættir þeir hjá Fjarskiptum hf. (Vodafone) sem nefnast Tímavél og Frelsi teljist til línulegrar eða ólínulegrar myndmiðlunar samkvæmt flutningsreglum VII. kafla fjölmiðlalaga nr. 38/2011. 

Þess í stað mun verða leyst úr kröfu Vodafone þess efnis að Síminn hf. hafi brotið gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, með því að beina viðskiptum fjölmiðlaveitu Símans að fjarskiptahluta þess félags, í sérstöku máli sem nú hefur verið stofnað. Í forsendum PFS kemur fram að í ljósi markmiðs flutningsreglna, þ.m.t. 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, um að brjóta upp lóðrétt eignarhald á efni og dreifingu, telur PFS vera tilefni til að fjalla með ítarlegri rannsókn um síðastgreinda kröfu Vodafone. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði er fjölmiðlaveitu óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.

Eins og kunnugt er lagði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni lögbann við því að Vodafone miðli hliðruðu efni Skjásins (Tímavél og Frelsi) um sitt fjarskiptanet. Að mati Vodafone er með lögbanninu komið á ástandi, þar sem fjölmiðlaveita Símans (Skjárinn) beinir viðskiptum viðskiptamanna eingöngu að fjarskiptaneti Símans í andstöðu við fjölmiðlalög. Þá hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hvort aðgerðir Símans séu einnig í andstöðu við samkeppnislög.