Af gefnu tilefni vegna umfjöllunar um RÚV skýrslu

VodafoneVodafone
29.10.2015 15:49

Vodafone tók þátt í forvali fyrir lokað útboð RÚV, sem fólst í að koma á stafrænum útsendingum í stað hliðrænna á landinu öllu í samkeppni við meðal annars Símann og TeleNor. Á endanum stóð valið á milli tilboða tveggja félaga, Vodafone og TeleNor. Tilboð Vodafone var metið hagstæðast og því gengið til samninga í kjölfarið um 15 ára óuppsegjanlegan samning, sem fól í sér skyldur til umtalsverðra fjárfestinga og rekstrarkostnaðar fyrir Vodafone. Sendastöðum var til að mynda fjölgað um 70% á uppbyggingartímabilinu, um allt land, en megin þungi fjárfestinga og kostnaðar Vodafone féll til á árunum 2013 og 2014.

Upplýsingagjöf félagsins um umræddan samning var vönduð og skýr. Vodafone hefur fengið staðfest hjá Kauphöll Íslands að upplýsingagjöf félagsins er hvorki til skoðunar né rannsóknar þar.

Nauðsynlegt er að taka fram að fyrrnefndur samningur kveður á um töluvert fleira en einungis uppbyggingu og rekstur stafræns dreifikerfis sjónvarps. Vodafone sér ennfremur um rekstur langbylgjurása RÚV og rekur tæplega 200 FM senda um allt land.

Í tilefni af umræðu um meinta úrelta tækni skal tekið fram að DVB-T/T2 tæknin er útbreiddasta og mest nýtta sjónvarpsdreifileið á landi í heiminum í dag, sér í lagi hjá fjölmiðlum í almannaeigu enda gerir hún ekki kröfu til viðbótar kostnaðar hjá notendum. DVB-T2 staðallinn var upphaflega útfærður árið 2008. Fyrsta DVB-T2 kerfið fór í loftið í Bretlandi árið 2010 og fjölgar enn stöðugt þeim löndum sem nýta sér DVB-T2 tæknina. Útboð RÚV árið 2012 setti skilyrði um 99,8% dreifingu með DVB tækni og allir þátttakendur útboðsins buðu miðað við þær forsendur.