Víðtækasta ISO-vottun íslenskra fjarskiptafélaga - vottun Vodafone endurnýjuð og útvíkkuð

VodafoneVodafone
25.10.2015 13:39Árleg endurúttekt ISO-27001 vottunar Vodafone á Íslandi hefur farið fram og er staðfest að stjórnkerfi fyrirtækisins fyrir upplýsingaöryggi samræmist áfram hinum alþjóðlega staðli. Vottunin nú tekur til alls fyrirtækisins og er sú víðtækasta hjá íslenskum fjarskiptafélögum.

Vottun Vodafone á Íslandi samkvæmt ISO-27001 staðlinum felur í sér formlega viðurkenningu á því að hjá félaginu sé upplýsingaöryggi stjórnað samkvæmt fyrirfram ákveðnum ferlum og fagleg vinnubrögð viðhöfð í hvívetna. Vottunin tryggir jafnframt stöðugar umbætur í upplýsingaöryggismálum og veitir þannig jákvætt aðhald.

Vodafone hlaut upphaflega vottun samkvæmt ISO-27001 staðlinum í júlí 2014 að undangenginni formlegri úttekt, sem er endurtekin árlega. Endurvottunin nú er víðfeðmari en sú upphaflega. Hún nær nú líka til stjórnkerfis upplýsingaöryggis fyrir verslanir, sjónvarp, radíódeild, einstaklings- og heildsölu Vodafone – til viðbótar við farsíma-, landlínu- og netþjónustu fyrirtækisins áður.

Endurúttektin var í höndum The British Standard Institution (BSI), sem rýndi m.a. í vinnulag, virkni og ferla innan fyrirtækisins, þ.á.m. vinnulag við skráningar, vinnslu, geymslu og eyðingu gagna auk fjölda annarra þátta í starfseminni. 

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone:
„Það er afar ánægjulegt að fá staðfest að hjá Vodafone höldum við áfram að fylgja ISO-27001 staðlinum fyrir upplýsingaöryggi í hvívetna. Áherslan á upplýsingaöryggismál er viðvarandi og eitthvað sem við gefum engan afslátt á. Útvíkkun vottunar félagsins er m.a. liður í þessari vinnu og búum við nú að víðtækustu ISO-27001 vottun fjarskiptafélaga á Íslandi. Við höfum lagt og munum áfram leggja mikla áherslu á að vera ætíð í fararbroddi hvað varðar faglega og ábyrga stýringu upplýsingaöryggismála.“