Vodafone á Íslandi er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

VodafoneVodafone
22.03.2017 10:11

Mynd: Geir Ólafsson

Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone á Íslandi, hlaut í dag viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“ þriðja árið í röð en það er Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands sem veitir viðurkenninguna.

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Fjarskipta, tók við viðurkenningunni í Hörpu í hádeginu fyrir hönd fyrirtækisins en afhendingin fór fram á árlegri ráðstefnu Rannsóknarmiðstöðvarinnar um góða stjórnarhætti sem haldin er í samvinnu við hagsmunaaðila. Tilgangur ráðstefnunnar er að vekja athygli á mikilvægi góðra stjórnarhátta, alþjóðlegum straumum og stefnum í stjórnarháttum og vinnu íslenskra stjórnarmanna við að efla stjórnarhætti.

„Við viljum vera í fararbroddi varðandi góða stjórnarhætti á Íslandi. Vodafone var fyrst fyrirtækja á Íslandi til að innleiða tilnefningarnefnd vegna hæfismats á stjórnarmönnum en öll stór skráð fyrirtæki í Evrópu hafa slíkar nefndir. Þetta er þriðja árið sem við fáum þessa viðurkenningu en stjórn einsetti sér árið 2014 að komast í þennan hóp. Góðir stjórnarhættir leiða af sér betri rekstur Vodafone fyrir alla, ekki einungis hluthafa, því ánægja starfsmanna, viðskiptavina, birgja, lánardrottna og álit almennings kemur inn í stjórnarvinnuna," segir Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Fjarskipta.

Fyrirtæki fá viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum eftir úttekt sérstakra úttektaraðila á stjórnarháttum og Rannsóknarmiðstöðvar í stjórnarháttum.