Huawei og Vodafone setja af stað tilraunaverkefni í nýrri snjalltækni

VodafoneVodafone
08.02.2017 09:23

Huawei og Vodafone á Íslandi hafa sett af stað tilraunaverkefni í svokallaðri NB-IoT tækni, Narrowband Internet of Things, sem gerir Íslendingum kleift að vera meðal leiðandi þjóða í tækjanetsbyltingunni á næstu árum.

Um er að ræða nýja og byltingarkennda þráðlausa fjarskiptatækni fyrir samskipti milli tækja sem er að ryðja sér til rúms víða um heim þessi misserin. Meðal helstu kosta NB-IoT kerfa eru mikil drægni innan sem utan dyra, sem eykur notagildi snjalltækja á erfiðum stöðum svo sem í húsakjöllurum og á svæðum utan alfaraleiða. Einnig er lág orkunotkun mikill kostur NB-IoT kerfa og munu dæmigerðar rafhlöður duga í 10-15 ár til samskipta við snjalltæki sem nýta sér tæknina. Að lokum má nefna að kerfið er sérhannað til þess að þjónusta mikinn fjölda tækja á einfaldan hátt. Snjalltengdir vatnsmælar, bílastæðanemar eða eftirlit með búfénaði, eru allt dæmi um notkunarmöguleika sem þessi nýja tækni felur í sér.

Huawei og Vodafone munu í sameiningu setja upp tilraunakerfi á Íslandi á afmörkuðum svæðum og prófa þar með eiginleika kerfisins við íslenskar aðstæður. Samtímis verður prófuð ýmis virkni tækja sem geta nýtt sér þessa tækni ásamt því sem rekstrarhæfni kerfisins á Íslandi verður kannað.

Meðal fyrstu í heiminum að prófa tæknina

„Við erum með fyrstu löndum í heiminum til að prófa þessa nýju tækni sem við spáum að verði allsráðandi í uppbyggingu IoT á heimsvísu. Það skiptir miklu máli fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og lífsgæði Íslendinga að taka þátt í þessari tæknilegu uppbyggingu og til þess verða nauðsynlegir innviðir eins og góð og nútímaleg fjarskiptakerfi að vera til staðar. Við fögnum því að Huawei ætli að vinna með okkur að því að tryggja Íslendingum aðgang að þessum kerfum sem fyrst og sé reiðubúið að gera tilraunir með öllum áhugasömum íslenskum fyrirtækjum sem vilja byrja að gera tilraunir með IoT í sinni starfsemi“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone.

Vodafone hvetur áhugasöm fyrirtæki, sem vilja taka þátt í tilrauninni með tækjum tengdum sínum rekstri, að hafa samband við Vodafone. Búast má við að fyrstu tækin geti tengst kerfinu á haustmánuðum 2017.