Travable ferðaþjónustuapp fyrir fólk með hreyfihömlun sigrar í Stökkpallinum

Guðfinnur SigurvinssonGuðfinnur Sigurvinsson
31.05.2018

 

Travable nýtt ferðaþjónustuapp fyrir fólk með fötlun bar sigur úr býtum í viðskiptaþróunarkeppni Stökkpallsins en úrslitin voru kynnt í Hörpu nú síðdegis.

Travable veitir viðskiptavinum sínum upplýsingar um hvar aðgengi er best fyrir fólk með hreyfihömlun og auðveldar þeim þannig að fara um almannarýmið og skipuleggja sig fram í tímann. Travable vill hafa jákvæða nálgun með því að einblína á staði sem veita fólki með hreyfihömlun góða þjónustu og taka mið af þörfum þeirra í sinni þjónustu. Travable nýtir þannig snjalltækni til að gera sveitarfélög vistvænni fyrir bæði íbúa og gesti. Travable-appið ætlar fyrst um sinn að einbeita sér að íslenskum markaði en stefnan er sett á Norðurlöndin.

Í öðru sæti varð Koride sem er vefsíða og app sem tengir saman bílstjóra og farþega og auðveldar farþegum að ferðast saman og spara peninga um leið og þeir kynnast nýju fólki. Með samnýtingu bifreiða minnkar kolefnisspor ferðalanga, jákvæð áhrif á umferð ásamt betri upplifun við heimsókn til landsins. Í þriðja sæti hafnaði Alvican sem hefur þróað öryggiskerfi sem kallast „Hjartsláttur heimilisins.“ Kerfið nemur óeðlilega hegðun á heimilum eldri borgara, s.s. hreyfingu og/eða vatns- og rafmagnsnotkun, sem gefur til kynna að slys kunni að hafa orðið eða eitthvað farið úrskeiðis á heimilinu. Kerfið hjálpar fólki að vera sjálfstætt og öruggt heima hjá sér, án þess að því finnist vera undir sérstöku eftirliti. Stökkpallurinn er viðskiptaþróunarkeppni Vodafone og Startup Iceland og var haldin í þriðja skiptið í ár. Markmiðið með keppninni er að leggja áherslu á að styðja frumkvöðla í vöruþróun og markaðssetningu. Samstarfið er liður í stuðningi Vodafone sem bakhjarls Startup Iceland og endurspeglar áherslu félagsins á nýsköpun og samfélagsábyrgð.

IoT Smart City

Í ár leitaði Stökkpallurinn sérstaklega að snjöllum lausnum „IoT smart city“ en tilgangurinn er að styðja við bæjarfélög og fyrirtæki sem vilja verða snjallari. Velgengni borga og bæja mun í auknum mæli þurfa að treysta á tæknina svo hægt sé að bjóða upp á aukin lífsgæði og hagkvæmari lausnir fyrir íbúa og fyrirtæki. Fimm þátttakendur voru valdir úr stórum hópi umsækjenda og fá tækifæri til að koma hugmynd að vöru á markað í samvinnu við Vodafone en lagt er mat á möguleika til sölu og markaðssetningar í samvinnu við frumkvöðla. Þrjú fyrirtæki höfnuðu í þremur efstu sætunum og hljóta bæði peningaverðlaun og fjarskiptastyrk en sprotafyrirtækin fimm fengu öll kjörið tækifæri til að kynna sig og sín verkefni fyrir áhrifa- og reynslumiklu fólki úr íslenska- og alþjóðlega frumkvöðlaumhverfinu á Startup Iceland ráðstefnunni í Hörpu.