Vodafone styður Myndina af mér

Guðfinnur Sigurvinsson Guðfinnur Sigurvinsson
17.01.2018

#samfélagsábyrgð #sexting

„Myndin af mér“ er hálftíma stuttmynd eða stuttþáttaröð fyrir börn tólf ára og eldri sem verður frumsýnd í fjórum hlutum á Facebooksíðu Vodafone dagana 16. -19 janúar en fer svo á netið í heilu lagi þann dag.

Vodafone á Íslandi hefur um árabil unnið að netöryggi fyrir börn og lagt sig fram um að stuðla að jákvæðri netmenningu. Vodafone hefur í þessum tilgangi barist alveg sérstaklega gegn sexting og hefndarklámi.

Handritið er unnið upp úr frásögnum íslenskra unglinga um reynslu sína af stafrænu kynferðisofbeldi og er skrifað af Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem hefur áður verið í samstarfi við Vodafone í sambærilegum verkefnum. Þættirnir eru í anda Skam vinsælu norsku unglingaþáttanna sem hafa slegið í gegn víða um heim. Aðrir helstu aðstandendur myndarinnar eru Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri og Halla Kristín Einarsdóttir, aðstoðarleikstjóri og klippari. Framleiðandi er Elinóra- áhugafélag um kvikmyndir og fræðslu.

Stafrænt kynferðisofbeldi er það kallað þegar nektarmyndum er dreift án leyfis þess sem á þeim er. Uppruni slíkra mynda getur verið af ýmsum toga, stundum eru myndir sendar í trúnaði, stundum teknar án vitundar viðkomandi og einnig er hægt að nota stafræna tækni til að skeyta saman myndum. Dreifing slíkra mynda getur valdið miklum sálrænum og félagslegum skaða og dæmi eru um að slíkt hafi kostað mannslíf. Þá er öll dreifing slíkra mynda af einstaklingi undir átján ára ólögleg. Myndin af mér fjallar um baráttuna gegn kynferðislegu ofbeldi á netinu, með fræðslu og jákvæðni að leiðarljósi.

Verk sömu höfunda, stuttmyndirnar Fáðu já frá 2013 og Stattu með þér frá 2014 hafa einnig ofbeldisforvarnir að leiðarljósi og vöktu mikla athygli þegar þær voru sýndar.

Myndinni ásamt kennsluleiðbeiningum og ítarefni er dreift án endurgjalds og það er von aðstandenda að sem flestir geti nýtt sér efnið til að fræðast um og hefja umræður um stafrænt kynferðisofbeldi sem er afar útbreitt hjá unglingum og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Heimasíðan hefur verið opnuð og þar má nálgast helstu upplýsingar.