4G+ háhraðavæðing á farsímakerfum Vodafone

Guðfinnur SigurvinssonGuðfinnur Sigurvinsson
13.11.2017

#4g #einstaklingar #farsími #fyrirtæki #vodafone

4G+ háhraðavæðing Vodafone er í fullum gangi og mun félagið uppfæra farsímakerfið með tilliti til hraða á næstu 5 mánuðum. Auðvelt er að uppfæra um 70% af sendum Vodafone og mun hraði og afkastageta kerfisins eflast til muna. Viðskiptavinir Vodafone með farsíma sem styðja 4G+ munu á næstu mánuðum sjá slíkt merki birtast á farsímum sínum í síauknum mæli. Vodafone er í stöðugri uppbyggingu á farsímakerfum sínum og mun áfram fjárfesta í aukinni útbreiðslu, hraða og þéttni kerfisins. Með slíkri fjárfestingu vill Vodafone undirbúa sig sem best fyrir framtíðina og möguleika sem þá opnast. Rétt er að taka fram að hraði farsímakerfa skiptir þó mun minna máli fyrir upplifun venjulegra viðskiptavina en almenn útbreiðsla á háhraðanetum. Ástæðan er sú að venjuleg gagnamagnsnotkun á símtækjum; svo sem áhorf á myndefni, gerir ekki kröfu um meiri hraða en 2-4 Mbps og því skiptir hraðinn í dag minna máli að öðru leyti en því að gera hraðapróf á netinu. Meira máli skiptir að fá 4G merki sem víðast innan dyra og utan til að tryggja sem bestu upplifunina.

Vodafone hefur einstaka útbreiðslu í 4G kerfi sínu sem nær nú yfir 168 þúsund ferkílómetra á landi og sjó. Félagið nær meiri útbreiðslu á sín 4G kerfi með langdrægum 800 MHz sendum, en fyrirtækið er hið eina á Íslandi sem beitir slíkum langdrægum 4G sendingum til að ná yfirburðum í landfræðilegri dreifingu, en 800 MHz sendar Vodafone draga mun lengra en sambærilegir 1800 Mhz sendar annarra íslenskra fjarskiptafélaga. Vodafone hefur einnig lagt mikla áherslu á gæði tenginga á erlendri grundu og þar býr félagið að sterkum bakhjarli í Vodafone Group með öflugt dreifikerfi á heimsvísu en Vodafone tryggir hágæða 4G samband í um 50 löndum, ekki síst í Evrópu.

Vodafone hefur einnig verið leiðandi í tilraunum með nýja byltingarkennda þráðlausa fjarskiptatækni, léttband (Narrowband-IoT), fyrir samskipti milli tækja sem er að ryðja sér til rúms víða um heim þessi misserin. Í september síðastliðnum sýndi Vodafone fram á notkunarmöguleika tækninnar með gangsetningu fyrsta sendisins á haustráðstefnu Advania. Meðal helstu kosta NB-IoT kerfa eru mikil drægni innan sem utan dyra, sem eykur notagildi snjalltækja á erfiðum stöðum svo sem í húsakjöllurum og á svæðum utan alfaraleiða. Einnig er lág orkunotkun mikill kostur NB-IoT kerfa og munu dæmigerðar rafhlöður duga í 10-15 ár til samskipta við snjalltæki sem nýta sér tæknina. Að lokum má nefna að kerfið er sérhannað til þess að þjónusta mikinn fjölda tækja á einfaldan hátt. Snjalltengdir vatnsmælar, bílastæðanemar eða eftirlit með búfénaði, eru allt dæmi um notkunarmöguleika sem þessi nýja tækni felur í sér.