Vodafone á Íslandi hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Guðfinnur SigurvinssonGuðfinnur Sigurvinsson
26.09.2017

#jafnrétti #vodafone

 

Vodafone hlaut í morgun Hvatningarverðlaun jafnréttismála en verðlaunaafhendingin fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti Stefáni Sigurðssyni forstjóra Vodafone verðlaunin en markmiðið með þeim er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.

Að verðlaununum standa Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að Vodafone hafi unnið markvisst í því að jafna stöðu kynjanna í karllægum geira á öllum sviðum fyrirtækisins. Jafnréttisstefna þess sé samofin mannauðsstefnu fyrirtækisins og snýr að því að laða að fjölbreyttan hóp til starfa. Karlar eru markvisst ráðnir í deildir þar sem konur eru ráðandi og konur sömuleiðis í deildir þar sem karlar eru ráðandi. Á þann hátt telur fyrirtækið að hægt sé að sporna við myndun „karlastarfa“ og „kvennastarfa“. Með markvissum aðgerðum hafi fyrirtækið náð góðum árangri í starfsþróun innan fyrirtækisins með það að markmiði að auka jafnrétti. Fyrirtækið hafi lagt ríka áherslu á að skapa sveigjanlegt vinnuumhverfi sem er aðlaðandi fyrir bæði karla og konur.

„Jafnréttismál snúast ekki bara um verkefni og áherslur heldur er mikilvægt að skapa menningu jafnréttis á vinnustaðnum og því verkefni verður seint lokið. Við höfum gert fjölmargt hjá Vodafone til að stuðla að og styrkja jafnréttið og næst ætlum við að þróa áfram sérstaka fjölskyldustefnu. Nútíma fyrirtæki þurfa að viðurkenna að starfsfólkið hefur fleiri skyldum að gegna en bara gagnvart vinnu og við viljum gefa okkar starfsfólki færi á að finna sjálft bestu lausnir á milli vinnu og fjölskyldulífs,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Vodafone.

„Jafnréttismál eru mikilvæg, ekki bara til þess að byggja upp réttlátan vinnustað heldur einnig til þess að ná meiri árangri í harðri samkeppni. Við hljótum að vilja sem fyrirtæki höfða til sem flestra, fá besta fólkið til starfa og rannsóknir sýna að teymi með fjölbreyttan bakgrunn ná meiri árangri en einsleit teymi. Þetta er verkefnið framundan og verðlaun sem Vodafone hampar í dag eru heldur betur hvatning á þeirri vegferð,“ segir Stefán að lokum.

Rökstuðningur dómnefndar allur (pdf)