Vodafone styður umferðarátakið „Vertu snjall undir stýri“

Guðfinnur SigurvinssonGuðfinnur Sigurvinsson
20.09.2017

#einstaklingar #farsími #fyrirtæki #samstarf #snjallundirstýri #vodafone #öryggi

Vodafone á Íslandi og Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafa leitt saman hesta sína í átaksverkefninu „Vertu snjall undir stýri“ sem er ætlað að breyta viðhorfi fólks til snjalltækjanotkunar og snúa við þeirri óheillaþróun sem átt hefur sér stað vegna notkunar snjalltækja í umferðinni.

Nú til dags þykir mörgum bílstjórum sjálfsagt að lesa og skrifa smáskilaboð, tölvupósta og jafnvel horfa á myndefni í snjalltæki sínu við akstur. Þetta hefur stóraukið slysahættu í umferðinni og mikilvægt að bregðast við en líti bílstjórinn til dæmis aðeins í 5 sekúndur af veginum og á símaskjáinn ekur bifreiðin á þeim tíma vegalengd sem samsvarar heilum fótboltavelli. Niðurstöður rannsókna frá bæði Evrópu og Bandaríkjunum benda til þess að nær 25% af öllum umferðarslysum megi nú rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segir að seljendur snjalltækja megi ekki láta sitt eftir liggja. „Vodafone er mjög umhugað um samskiptaöryggi og viljum láta verkin tala. Við sem seljum snjalltæki og þjónustu þeim tengdum viljum auðvitað tryggja sem best örugga notkun þeirra og að þau bæti fyrst og fremst samskipti og séu fólki til ánægju. Vodafone hefur lengi verið einn aðalbakhjarl Landsbjargar, stutt við félagið sjálft og unnið með þeim að mörgum þjóðþrifamálum og átakið Vertu snjall undir stýri er enn eitt tækifærið sem við grípum fegins hendi til þess að vinna með þeim að góðum málstað,“ segir Stefán en í sumar sáu Vodafone og Áttan um vitundarvakningu átaksins á samfélagsmiðlum.

Í samfélagsverkefni Vodafone og Landsbjargar felst m.a. að Vodafone skrifar undir samfélagslega yfirlýsingu um þátttöku í verkefninu, bílafloti Vodafone verður merktur á kostnað fyrirtækisins og samningur gerður við bílstjóra um að taka virkan þátt í verkefninu og nota hvorki farsíma né snjalltæki undir stýri. Boðið verður upp á fræðslu til allra bílstjóra áður en þeir keyra merktir út í umferðina ásamt því sem allt starfsfólk verður hvatt til að nýta ekki farsíma né snjalltæki meðan á akstri stendur.