Framtíðin er hér - iPhone X og iPhone 8

Ósk HilmarsdóttirÓsk Hilmarsdóttir
12.09.2017

#einstaklingar #farsími #fyrirtæki #iphone #verslun

Afmælisútgáfan - iPhone X

Í kvöld afhjúpaði Apple nýjustu græjurnar sínar og stjarna kvöldsins var án efa 10 ára afmælisútgáfa iPhone – iPhone X. 5,8“ OLED skjárinn þekur nánast alla framhlið símans og Home hnappurinn er farinn. Þar af leiðandi er enginn fingrafaraskanni, sem kemur þó ekki að sök því iPhone X (eða iPhone 10) býr yfir andlitsskanna sem er mun öruggari læsing en fingrafaraskanninn. Í stað þess að nota Home hnappinn í margs konar aðgerðir eru nú notaðar fingrahreyfingar yfir svæðinu þar sem Home hnappurinn var áður. Þökk sé þessari tækni er ný tækni í iPhone X sem kallast animoji og stendur fyrir animated emojis. Með þessari tækni nemur síminn svipbrigði og hreyfingar andlitsins og gerir úr þeim emoji, eða broskalla, að eigin vali. Myndavélin að framan býður upp á portrait mode með portrait lýsingu, sem þýðir að sjálfsmyndirnar verða flottari en nokkru sinni fyrr. Á bakhlið símans eru linsurnar lóðréttar með bættum stöðugleika og aðdrætti við skert birtuskilyrði.

Rafhlaðan er öflugri en nokkru sinni fyrr og endist 2 klst. lengur en á iPhone 7. Þar að auki er hægt að hlaða símann þráðlaust með stuðningi við hleðslulausnir frá helstu framleiðendum í heimi.

Hægt verður að fá iPhone X í Space Gray eða Silver og verður hann í 64 GB og 256 GB útgáfum. Hann er að sjálfsögðu vatns- og rykþolinn en einhver bið verður eftir honum, þar sem hann verður ekki til sölu í Bandaríkjunum fyrr en í nóvember.

iPhone 8 og 8 Plus

Apple kynnti einnig iPhone 8 og iPhone 8 Plus. Fram- og bakhliðin er úr sterku gleri og skjárinn notast við tækni sem kallast True Tone display en með henni nemur síminn lýsingu í kringum sig og aðlagar skjábirtuna í samræmi við hana. Stærðirnar eru þær sömu og á iPhone 7 þar sem iPhone 8 er 4,7“ og iPhone 8 Plus er 5,5“. Báðar útgáfurnar bjóða upp á þráðlausa hleðslu og verða í boði í þremur litum - Silver, Space Gray og Gold og stærðirnar verða 64 GB og 256 GB.

Búið er að bæta hátalarana í iPhone 8 og 8 Plus til muna og spila þeir 25% hærra en í iPhone 7 og eru með dýpri bassa. Myndavélin hefur einnig verið bætt, og ber þá helst að nefna að nú er hægt að taka háskerpumyndbönd á 240 römmum á sekúndu. Nýr hugbúnaður dregur úr noise í myndum eða myndtruflunum svo útkoman er skýrari en nokkru sinni fyrr, en iPhone 8 Plus er með tvöfalda linsu að aftan, líkt og iPhone 7 Plus. Símarnir eru hannaðir með möguleika augmented reality í huga og styðja þeir 3D leiki og machine learning öpp.

Ný hleðsludokka, 4K Apple TV og enn betra Apple Watch

Ný hleðsludokka – Air Power – var einnig kynnt en með henni er hægt að hlaða fleiri en einn hlut í einu. Þá er sem dæmi hægt að leggja iPhone 8 ofan á hana, ásamt Apple Watch og Apple AirPods og hlaðast allar græjurnar á sama tíma.

Nýjasta Apple TV mun vera með 4K og HDR myndgæði, en Apple vann nýlega Emmy verðlaun fyrir hönnun sína þar.

Apple Watch Series 3 var einnig kynnt en salan á Apple Watch hefur aukist um 50% frá ári til árs samkvæmt kynnendunum og tróna nú fyrir ofan Rolex og Fossil. Úrið er með hjartsláttarmæli sem fyrr og er mikið lagt upp úr að hlúa að heilsu hjartans, og er úrið hannað til að láta vita ef það nemur hjartsláttaróreglu.

Við munum fylgjast vel með og auglýsa dagsetningar um leið og þær liggja fyrir.

Og þá er bara að láta sig hlakka til jólanna en við vitum amk. nákvæmlega hvað verður á jólagjafalistanum í ár!