Undanfari 5G: Byltingarkenndar tilraunir með nýtt og langdrægara farsímakerfi

Guðfinnur SigurvinssonGuðfinnur Sigurvinsson
07.09.2017

#einstaklingar #fyrirtæki #iot #vodafone

Vodafone sýnir, í fyrsta sinn á Íslandi, og með fyrstu löndum í Evrópu, Narrowband-IoT tæknina eða léttbandstæknina í virkni með einum af sendum Vodafone á Íslandi og nokkra af þeim notkunarmöguleikum sem tæknin býr yfir á haustráðstefnu Advania í Hörpu föstudaginn 8. september næstkomandi. Kjartan Briem framkvæmdastjóri tæknisviðs og Þorvarður Sveinsson forstöðumaður stefnumótandi verkefna hjá Vodafone kynna þar nýja tækni yfir farsímakerfin sem kemur til með að hafa mikil áhrif á líf okkar allra á næstu árum.

Helstu eiginleikar léttbandstækninnar eru annars vegar framúrskarandi og einstök drægni í dreifingu og hins vegar mjög lág orkuþörf. Þetta gerir það að verkum að hægt verður að framleiða mjög ódýran búnað með innbyggðum rafhlöðum sem endast í 12-15 ár án þess að þurfa að tengjast rafmagni á annan hátt.  Búnaðurinn mun virka á stöðum eins og kjöllurum þar sem annað farsímasamband er ekki til staðar, svo sem á dreifbýlum svæðum með sömu vandamál.

Margvíslegar tilraunir eru að hefjast út um allan heim með nýtingu léttbandstækninnar; meðal annars fyrir snjallmæla, bílastæði, ýmsar nýjungar í eltibúnaði, lausnir fyrir landbúnað o.s.frv.

„Dæmin sem Vodafone mun sýna á ráðstefnunni eru bílastæðalausn sem getur hjálpað fólki að finna laus bílastæði og létt á umferðarþunga í miðborgum. Lítið líkan verður sett upp á básnum okkar þar sem fjarstýrðum bíl er keyrt yfir. Við það verður bílastæðið upptekið og getur birst í smáforriti eða á skjá. Hugmyndin er að nema er komið fyrir undir malbikinu sem skynjar hvort bíl sé lagt í stæðið,“ segir Kjartan Briem framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodfone en um er að ræða samstarfsverkefni Huawei og Vodafone.

„Einnig kynnum við snjalllásinn sem er aðgangur að læstum hurðum með léttbandstækninni, þannig geta t.d. hótel skipt út herbergjalásum sínum og breytt lyklum að herbergjum úr kortum í snjallsíma. Þá geta sýningargestir skoðað svokallaðan „Happy or Not“ tengdan búnað sem mælir ánægju viðskiptavina,“ segir Kjartan Briem.

Að mörgu leyti má segja að léttbandstæknin sé ákveðinn forveri 5G farsímakerfanna og gefi hugbúnaðarframleiðendum tækifæri að hanna nýjar lausnir til hagsbóta fyrir fyrirtæki og almenning sem mun svo þróast enn frekar með tilkomu 5G tækninnar eftir 4-8 ár.