Léttband IoT: Að tengja þessi 99%

Ingi Björn ÁgústssonIngi Björn Ágústsson
17.07.2017

#einstaklingar #fyrirtæki #iot #léttband #vodafone

Fljótt á litið eiga ruslatunnur, vatnsmælar og reykskynjarar fátt sameiginlegt. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að notkunarmöguleikar þessara vara yrðu mun meiri með því að tengja þau við IoT-hlutanetið, en þar til nú hefur það ekki þótt fýsilegt. Ekki vegna þess að það er ekki hægt heldur af því að það borgar sig ekki að tengja þær með hefðbundnum hætti.

Með því að tengja ruslatunnur við netið; geta þær látið sorphirðuna vita þegar það þarf að tæma þær, vatnsmælar upplýst um notkun og um mögulega vatnsleka og hægt væri að fá upplýsingar um stöðu og ástand reykskynjara sjálfvirkt.

Allt kæmi þetta sér vel og gæti sparað bæði tíma og peninga, sér í lagi þegar tekið er tillit til fjölda þessara hluta sem eru allt í kringum okkur; á heimilum, vinnustöðum eða um borg og bæi landsins.

Vandinn við hefðbundnar IoT lausnir er að þær eru oft of flóknar eða dýrar fyrir notkunarmöguleika lausnanna. Ruslatunnur, vatnsmælar eða öryggiskerfi þurfa ekki að senda mikið af gögnum frá sér, jafnvel aðeins nokkur bæti á dag. Í stað þess þurfa þau IoT búnað og tengingu sem er mjög ódýr, endist árum saman á rafhlöðu og nær fjarskiptasambandi þrátt fyrir að vera staðsett í kjallara, neðanjarðar eða á óbyggðu svæði.

Léttbandstækni IoT

Til að leysa ofangreindar þarfir hafa sprottið upp svokölluð „Low Powered Wide Area (LPWA)“ net auk tækni eins og Léttbandstækni IoT (e. Narrowband IoT) hér eftir skammstafað LB-IoT. LB-IoT er lykillinn til að tengja milljarða tækja á heimsvísu, þessi 99% hlutanetsins, og bæta þannig líf allra notenda.

LB-IoT er einfaldlega farsímastaðall, rétt eins og 3G og LTE sem Vodafone hefur tekið þátt í að þróa undanfarin ár með 3GPP, alþjóðlegum samtökum fjarskiptafyrirtækja.

LB-IoT er sérstaklega hannað fyrir lausnir sem þurfa langa rafhlöðuendingu, kosta lítið og senda lítið magn af gögnum á hverjum degi auk þess sem sendigetan nær inn á staði þar sem hefðbundin fjarskipti komast ekki. Þannig eru t.d. LB-IoT tæki hönnuð til að lifa í 10 ár á einni hleðslu í fullri notkun.

Lykilatriði við LB-IoT og það sem aðgreinir frá öðrum LPWA lausnum er að það keyrir á samþykktu kerfi, rétt eins og farsími þinn, í stað ósamþykkts kerfis eins og t.d. talstöðvar gera. Þetta þýðir að LB-IoT tæki eru ólíklegri til að verða fyrir truflunum eða notkunartakmörkunum. Einnig má bæta því við að NB-IoT er opinn staðall sem þýðir að þessi tækni úreldist ekki, hægt er að koma henni í gagnið með uppfærslu á hugbúnaði á núverandi fjarskiptakerfum þar sem LB-IoT mun lifa með núverandi samskiptakerfum og ekki þarf að reisa ný fjarskiptamöstur.

Mikilvægasti punkturinn er þó líklega að LB-IoT býr yfir öllum sömu öryggisþáttunum og 4G.

LB-IoT kemur núna

LB-IoT var hleypt af stokkunum fyrr í ár á Spáni þar sem kerfið er rekið í raunumhverfi og notað af fjölda viðskiptavina. Næstu lönd inn, sem eru á lokaskrefunum í prófunum, eru m.a. Holland, Írland, Suður-Afríka, Tékkland, Ítalía og Bretland en markmiðið er að LB-IoT verði virkt á heimsvísu árið 2020.

Vodafone á Íslandi leggur mikla áherslu á LB-IoT og stefnir á að setja sínar prófanir í gang með haustinu. Nú þegar hafa viðskiptavinir óskað eftir að taka þátt í prófunum með okkur og gætir talsverðrar spennu fyrir verkefninu.

Til að styðja við framgang LB-IoT hefur Vodafone m.a. opnað þrjár opnar rannsóknarstofur þar sem framleiðendum gefst færi á að prófa og þróa vörur sínar í raunumhverfi. Þetta flýtir fyrir þróun vörunnar á markað ásamt því að veita framleiðendum vettvang til að sannreyna vörur sínar og frammistöðu þeirra.

Áhugasömum aðilum sem vilja kynna sér LB-IoT eða IoT nánar er bent á að hafa samband við ráðgjafa Vodafone á netfangið iot@vodafone.is.

Grein þessi er byggð á bloggi Jennifer Gill Didoni, Head of IoT Product Management hjá Vodafone Group.