Stærsta 4G dreifikerfi landsins, eflist og stækkar, nær nú yfir 157 þúsund ferkílómetra á landi og sjó

Guðfinnur SigurvinssonGuðfinnur Sigurvinsson
30.06.2017

#4g #einstaklingar #fyrirtæki #vodafone

Vodafone hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á útbreiðslu þegar kemur að 4G kerfi sínu og nær kerfið nú yfir 157 þúsund ferkílómetra á landi og sjó sem er mesta útbreiðsla 4G farsímakerfis á Íslandi en kerfið nær til tæplega 97% landsmanna eftir búsetu. Félagið nær meiri útbreiðslu á sín 4G kerfi með langdrægum 800 MHz sendum, en fyrirtækið er hið eina á Íslandi sem beitir slíkum langdrægum 4G sendingum til að ná yfirburðum í landfræðilegri dreifingu, en 800 MHz sendar Vodafone draga mun lengra en sambærilegir 1800 Mhz sendar annarra íslenskra fjarskiptafélaga. Samhliða áherslu á útbreiðslu hefur hraði kerfisins verið aukinn mikið á árinu 2017 og sömuleiðis þéttni hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni; í dreifbýli, þéttbýli eða gagnvart sjófarendum í kringum landið.

Uppbygging til sjávar og sveita

Jöfnum höndum hefur verið byggt upp á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og um miðin í kringum landið. Á höfuðborgarsvæðinu hefur Vodafone á árinu lagt sérstaka áherslu á meiri hraða og þéttni, meðal annars með því að nýta 1800 MHz tíðnisvið sem áður var notað fyrir 2G farsímakerfið til aukinnar bandbreiddar. Viðskiptavinir Vodafone ættu því að finna fyrir verulegri aukningu gagnahraða á höfuðborgarsvæðinu yfir farsímanet fyrirtækisins. Á landsbyggðinni hefur einnig verið mikil uppbygging en sérstök áhersla hefur verið á langdrægni og þéttingu sem nýtist bæði Íslendingum og erlendum ferðamönnum á ferð sinni um landið.

Vodafone hefur einnig bætt 4G þjónustu á þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni, s.s. Bolungarvík, Ólafsvík, Grundarfirði, Egilsstöðum, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri, Fáskrúðsfirði, Eyrarbakka, Stokkseyri, Eskifirði, Grenivík, Hvammstanga, Þorlákshöfn og Garði svo nokkrir staðir séu nefndir.

4G samband á hafi er einnig mikill styrkleiki hjá Vodafone þar sem óskert 4G samband er hjá fyrirtækinu til Vestmannaeyja, í stórum hluta Breiðafjarðar og frá Vestfjörðum til Austfjarða og áfram þaðan er mjög góð 4G dekkun suður fyrir landið.

Áhersla á frístundabyggðir

Mikil áhersla hefur til dæmis verið lögð á uppbyggingu í kringum frístundasvæði og sumarhúsabyggðir vítt og breitt um landið. Á Suðurlandi hefur samband verið eflt við staði eins og Gullfoss, Geysi, Bláa lónið, Skóga, Dyrhólaey, Vík og sumarhúsasvæði víða um Suðurlandið, s.s. á Flúðum, Grímsnesi og við Þingvallavatn auk annarra staða. Nýr langdrægur háhraðasendir var settur upp við Fremra-Húsafell sem þjónar Skaftártungum, uppfærsla var á Jökulsárlóni og Fjallsárlóni svo eitthvað sé nefnt.

Hraði aukinn á útihátíðum

„Það hefur verið mikill kraftur í uppbyggingu dreifikerfa Vodafone á árinu og státar félagið nú að mestri útbreiðslu farsímafélaga á landi og sjó. Hraði hefur verið aukinn á höfuðborgarsvæðinu og mikil áhersla lögð á góða upplifun viðskiptavina á mannmörgum samkomum, svo sem á hátíðarhöldum vegna 17. júní, tónleikum eins og Secret Solstice, Rammstein og fleira. Í krafti alþjóðlegs samstarfs við Vodafone Group býður félagið einnig háhraða 4G samband fyrir íslenska ferðalanga í 43 löndum víðsvegar um heim sem nýtist viðskiptavinum afar vel í Evrópu nú þegar „Roam like home“ hefur tekið gildi,“ segir Kjartan Briem, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone.