Rúna Ösp er Punky

Guðfinnur SigurvinssonGuðfinnur Sigurvinsson
09.02.2017

#samfélagsábyrgð #sjónvarp #vodafoneGrundfirðingurinn Rúna Ösp Unnsteinsdóttir er tvítug og hefur með glæsibrag talað inn á teiknimyndaröðina um Punky en þættirnir eru til sýningar í bresku áskriftarveitunni Hopster sem er aðgengileg í Vodafone Sjónvarpi.

Punky tekst á við áskoranir hversdagslífsins með sínum hætti. Þættirnir sýna Punky sem hverja aðra stúlku en ungir áhorfendur komast fljótt að því að svo vill til að hún er með Downs-heilkenni. Þetta eru hugljúfir þættir, fimmtán talsins, sem kenna ungum börnum mikilvægi þess að læra að meta ólíka kosti fólks og að það sé í himnalagi að vera svolítið öðruvísi.

Hopster hefur fengið sérstaklega góðar viðtökur við þáttunum frá foreldrum barna með fötlun og Vodafone á Íslandi deilir þeirri sýn að það sé í takt við nútímann að framleiða barnaefni sem hentar ólíkum hópum og sýnir öll börn. Þess vegna kom ekki annað til greina en að talsetja þættina um Punky á íslensku og að manneskja með Downs-heilkenni talsetti fyrir Punky.

Rósa Guðný Þórsdóttir leikstýrir talsetningunni sem fór fram hjá Sýrlandi. Við erum virkilega stolt af frammistöðu Rúnu Aspar og að geta boðið íslenskum börnum upp á fjölbreytt og fræðandi barnaefni þar sem öll börn fá að njóta sín.