CrankWheel - frá Google og sölumennsku í alþjóðlegan sprota á Íslandi

#Nýsköpun #Samstarf #Stökkpallurinn


CrankWheel varð annar tveggja vinningshafa í Stökkpallinum, nýsköpunarkeppni Vodafone og Startup Iceland, sl. vor. Fyrirtækið hefur hannað samnefnt skjádeiliforrit sem gerir fyrirtækjum kleift að deila skjám sínum, með öruggum hætti í rauntíma, yfir netið á örfáum sekúndum. Fyrirtækið er þegar komið með viðskiptavini á borð við Íslandsbanka, Yell, Hertz og fleiri og hyggur á frekari landvinninga.

Engin krafa er gerð um flókinn tæknibúnað eða -þekkingu hjá endanotanda/móttakanda skjádeilingar CrankWheel – hann þarf einungis að vera tengdur snjalltæki eins og síma, tölvu eða spjaldtölvu. Þannig er hægt að gera símtöl myndræn í beinni og auðvelda og hraða sölu og þjónustu til mikilla muna.

Frá sölumennsku og Google í sprota á Íslandi

Rétt tæp tvö ár eru frá stofnun CrankWheel þótt hugmyndin að þjónustunni hafi kviknað um hálfu ári fyrr. Tilurð fyrirtækisins má rekja til vangaveltna stofnendanna, þeirra Jóa Sigurðssonar og Þorgils Más Sigvaldasonar um hvernig hægt væri að nýta rauntíma-samskiptalausnir, sem Jói hafði m.a. reynslu af að þróa hjá Google í Kanada, til að auðvelda sölu- og þjónustuferla sem í dag fara að mestu fram í síma. Gilsi hafði starfað sem sölumaður í yfir 15 ár, þar sem hann eyddi að eigin sögn ófáum klukkustundum í símanum - „ýmist að senda tölvupósta eða að hringja og bóka fundi, til að hitta fólk og sýna upplýsingar á tölvuskjám.“ Veltu þeir fyrir sér hvernig mætti hraða þessu ferli og gera skilvirkara – án þess þó að gera miklar kröfur til móttakenda um tæknilega þekkingu.

„Í starfi mínu hjá Google, kom ég m.a. að því að þróa samskiptalausnir í rauntíma í gegnum vafra, svokallað WebRTC, nema hvað þar var takmörkunum háð við hverja var hægt að tala.

Móttakandinn þurfti alltaf að vera með nýjustu útgáfu af örfáum vöfrum – sem á alls ekkert alls staðar við,“ segir Jói sem alls starfaði í 10 ár hjá Google en býr að 20 ára reynslu úr hugbúnaðargeiranum. Segjast þeir Gilsi hafa viljað þróa samskiptalausn sem fólk gæti treyst á að virkaði alltaf og útheimti ekki flókinn tækjabúnað hjá endanotandanum. „Þetta gæti þannig verið verkfæri fyrir sölu og þjónustu í margs konar geirum sem fólk gæti treyst á að virkaði - í hvert einasta skipti og það á nokkrum sekúndum,“ segir Gilsi. Hefur lýsingin „Software-as-a-Service“ einna helst verið notuð yfir þessa tegund þjónustu – sem mætti lýsa sem hugbúnaðarveitu gegn áskriftargjaldi.

Fyrirtækið tók fljótt af stað en ekki liðu nema fjórir mánuðir frá stofnun þar til byrjað var með prófanir í samstarfi við valin fyrirtæki. Fyrsti viðskiptavinurinn var í höfn eftir um hálft ár í rekstri og síðan hefur þeim fjölgað óðum. Í dag starfa sex starfsmenn á vegum CrankWheel, Jói og Gilsi þar á meðal, en einn starfsmaður er staðsettur erlendis.

Frá bönkum til Gulu línunnar

Markhópur CrankWheel er einkum fyrirtæki sem eru mikið í símasambandi við endanotendur (sbr. söludeildir, þjónustuver, auglýsinga- og hugbúnaðarframleiðendur) eða smærri, mistæknivædda aðila (t.d. hárgreiðslustofur, sjálfstæða iðnaðarmenn o.fl.). Eins og Gilsi kemst að orði; „allir þeir sem eru mikið í símanum eða samskiptum við viðskiptavini og vilja geta bætt því við „að sýna“ í leiðinni“.

Á meðal viðskiptavina CrankWheel í dag eru m.a. Íslandsbanki hér heima, Hertz og „gula línan“ bæði í Hollandi (DTG) og Bretlandi (Yell). „Íslandsbanka er til dæmis mjög umhugað um að veita góða þjónustu og gerir miklar öryggiskröfur, sem við leggjum áherslu á að mæta,“ segir Jói. „Á sama tíma og einkennir banka rétt eins og tryggingageirann að stöðugt er verið að fækka útibúum og minnka yfirbyggingu er mönnum umhugað um að halda sama þjónustustigi,“ bætir hann við. “CrankWheel er einmitt hugsað sem frábært verkfæri til þess.“

Erlendir viðskiptavinir CrankWheel hafa ýmist komið til í kjölfar kynningarstarfs fyrirtækisins á hinum ýmsu tækniráðstefnum eða í kjölfar þess að menn hafa kynnst þjónustunni hjá öðrum og í kjölfarið haft samband. „Sem dæmi var gula línan í Hollandi fyrsti erlendi aðilinn til að gerast viðskiptavinur CrankWheel, síðan bættist við fyrirtæki á Ítalíu sem hafði fengið CrankWheel kynningu hjá þeim, Yell í Bretlandi hafði síðan samband eftir að hafa fengið kynningu frá ítalska fyrirtækinu,“ segir Jói. Að sögn stofnendanna er hugbúnaðurinn að baki CrankWheel afar einfaldur í innleiðingu. „Það er gaman frá því að segja að þeir hjá Yell höfðu verið að vinna með aðra lausn og skiptu mjög auðveldlega – 400 manns á einni nóttu,“ bætir Gilsi við. Notendur lausnarinnar hjá Yell eru í dag tæplega 700.

„Lausn CrankWheel er í raun hönnuð fyrir fagfólk sem er ekkert endilega mjög tæknilega sinnað. Hún á að vera notendavæn, með mikið notagildi og lykilatriði er að við setjum engar kröfur á endanotandann“, segir Gilsi. “Alveg eins og þú getur hringt í fólk með mismunandi síma án þess að hafa áhyggjur af því hvort það virki, á lausnin okkar alltaf að virka,“ bætir hann við.

Stuðningur við sprota um margt góður á Íslandi


Spurðir út í hvernig sé að starfa í nýsköpunar- / sprotasamfélaginu á Íslandi í dag segja Jói og Gilsi það um margt gott. „Það er ýmislegt sem er mjög jákvætt hér,“ segir Jói og nefnir sem dæmi tiltölulega auðvelt rekstrarumhverfi, minna flækjustig og gott stuðningsnet sem einkennandi.

Að sögn Jóa hefur CrankWheel reynt að taka nokkuð virkan þátt í nýsköpunarsamfélaginu hér á landi og einnig hjálpað þar öðrum. Þeir hafa t.d. verið virkir þátttakendur í Startup Iceland, Jói hefur einnig verið mentor í viðskiptahröðlum eins og Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík í mörg ár o.fl.

Sem fyrr sagði varð CrankWheel annar tveggja vinningshafa í Stökkpalli Vodafone fyrr á árinu sem Jói segir hafa nýst gríðarlega vel. „Þar hefur til að mynda verið afar gagnlegt að eiga samstarf við starfsmenn Vodafone varðandi hluti sem nýtast okkur við vöruþróun. Sem dæmi höfum við lært hvernig fjarskiptafyrirtæki á borð við Vodafone myndi nálgast það að selja vöru á borð við okkar, öryggismál og fleira. Þá nýtast peningaverðlaun alltaf vel og að ég tali nú ekki um alvöru símaþjónusta,“ bætir hann við. „Það er líka gaman að geta sagt frá því að hafa náð árangri með alþjóðlegum nöfnum, á borð við Vodafone og eins Hertz, í samtali við aðra,“ segir Gilsi.

CrankWheel hefur notið góðs af stuðningi frá Tækniþróunarsjóði að sögn Jóa. „Við erum t.d. u.þ.b. búnir með 1,5 ár af 3-ja ára verkefnisstyrk þaðan sem hjálpar okkur mjög mikið. Einnig erum við með markaðsstyrk þaðan í eitt ár frá því í vor, sem varð einmitt til þess að við bættum við okkur sjötta manninum sem er sérhæfður í sölu svona Software-as-a-Service lausna.“

Framundan er að halda áfram að útvíkka vöru CrankWheel og stækka – sem fyrirtækið hefur þegar hafið. „Það er mjög mikið af skapandi fólki hér á Íslandi og fólk er líka mjög drífandi og til í að ganga í öll verk,“ segir Jói. Nefnir hann sem dæmi forritara CrankWheel sem hafa hjálpað til við að selja á ráðstefnum – sem er ekkert sjálfgefið í hugbúnaðargeiranum.
„Það má reyndar nefna að Ísland hefur gefið manni ákveðinn meðbyr á stundum. Eins og síðasta sumar þegar við vorum t.d. í landsliðstreyjunum á einni ráðstefnunni. Það komu allir á básinn til okkar þótt hann væri á lökum stað,“ bætir Gilsi við.

Það er full ástæða til að halda áfram að fylgjast með CrankWheel.