Vodafone býður alþjóðlega fyrirtækjaþjónustu

Björn VíglundssonBjörn Víglundsson
23.06.2016

#fyrirtæki #fyrirtækjalausnir #vodafone

Vodafone á Íslandi gerist fyrsta sjálfstæða fyrirtækið undir merkjum Vodafone Group til að bjóða íslenskum fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi fjarskiptalausnir bæði hér á landi sem og erlendis.

Það sama á einnig við um erlenda viðskiptavini Vodafone Group sem hafa eða hyggja á starfsemi hér á landi. Vodafone er eina fyrirtækið á Íslandi sem getur boðið þessa þjónustu í krafti samstarfs síns við Vodafone Group.

Hagkvæmni og góð þjónusta

Um er að ræða nýja alþjóðlega fyrirtækjalausn Vodafone Group sem gerir íslenskum fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi kleift að sameina fjarskiptaviðskipti sín hjá einum aðila og njóta þannig enn betri þjónustu og hagkvæmni í innkaupum. Sérstakur þjónustustjóri sér um að uppfylla mismunandi þarfir fyrirtækis og starfstöðva þess utan landsteinanna, á einum stað í stað margra áður sem tryggir hágæða þjónustu jafnt á starfstöðvum heima sem og utan landsteinanna. Auðveldar þetta fyrirkomulag þannig alla yfirsýn yfir notkun en með því er hægt að tryggja bæði hagkvæmni og góða þjónustu með einfaldari innkaupum og samræmi í samningagerð. Þannig er hægt að veita jafnt stórum sem smærri fyrirtækjum tækifæri til að njóta hagstæðari kjara og annarrar þjónustu innan alþjóðlegs nets Vodafone Group. Til að byrja með er um að ræða alþjóðlega farsímaþjónustu en aðrar tegundir fjarskipta verða í boði innan tíðar.

Þróað í samstarfi við Össur og Eimskip

Nokkur fyrirtæki úr hópi viðskiptavina Vodafone á Íslandi hafa komið að þróun þessarar alþjóðlegu þjónustu Vodafone Group. Á meðal fyrirtækja sem þátt hafa tekið í þeirri vinnu eru stoðtækjafyrirtækið Össur og Eimskipafélag Íslands. Þetta þétta samstarf, sem spilaði mikilvægan þátt við þróun þessarar alþjóðlegu lausnar, endurspeglast í að Vodafone á Íslandi er fyrsta samstarfsfyrirtæki Vodafone Group til að gerast opinber söluaðili hennar.

Vodafone á Íslandi getur nú einnig verið öðrum fjarskiptafélögum undir merkjum Vodafone innan handar við að þjónusta þeirra viðskiptavini sem hyggja á starfsemi hér á landi.

Nánari upplýsingar veitir fyrirtækjaþjónusta Vodafone í s: 5999500, netfang: firma@vodafone.is.

Stefán Sigurðsson, forstjóri:

,,Við fögnum því að geta nú boðið íslenskum fyrirtækjum fjarskiptaþjónustu um allan heim í samstarfi við Vodafone Group, eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki í heimi, með starfsemi í alls 76 löndum. Fyrir fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri er óneitanlega mikill akkur í því að geta sameinað þjónustu sína á einum stað og notið betri yfirsýnar og rekstrarhagræðis. Við erum stolt af því að vera fyrsta samstarfsfyrirtæki Vodafone í heiminum til að geta boðið þessa auknu þjónustu og teljum að henni verði vel tekið meðal alþjóðlegra íslenskra fyrirtækja þar sem fjarskipti eru lykilþáttur í samkeppnishæfni þeirra til framtíðar.“

Bernard Agis Garcin, Senior Partner Markets Manager, Vodafone Group:

„Við erum mjög ánægð að Vodafone á Íslandi sé fyrsta samstarfsfyrirtæki okkar til að hefja sölu á þessari lausn og getur þar með tekið þátt í að veita þjónustu alþjóðlega með Vodafone Group. Vodafone á Íslandi er öflugt þjónustufyrirtæki sem þjónar mörgum af stærstu fyrirtækjum á Íslandi. Við erum spennt yfir að vinna meira með íslenskum fyrirtækjum, sem eru í senn spennandi, skapandi og kraftmikil.“

Meðfylgjandi mynd sýnir þá Stefán Sigurðsson, forstjóra Vodafone á Íslandi, og Bernard Agis-Garcin, Senior Partner Markets Manager hjá Vodafone Group, þar þeir tókust í hendur samkomulaginu til staðfestingar í París, skömmu fyrir frábæran leik Íslands og Austurríkis á Stade de France.