Hvað er DDoS árás?
DDoS (distributed-denial of service) árásir skiptast í nokkra flokka en algengastar eru svokallað magnárásir (e: volumetric attacks) þar sem mikill fjöldi (yfirleitt smárra) pakka er sendur á áfangastað frá mörgum aðskildum stöðum sem erfitt er að greina og loka á með einföldum leiðum.
Oft eru þessar árásir magnaðar (e: amplified) með því að nýta sér þekkta veikleika í netþjónum, oft í bland með vírussýktum vélum sem tengdar eru Internetinu og er tilgangurinn að senda það mikið magn af umferð að tenging viðkomandi sé ónothæf og hann geti ekki nýtt sér Internetið.
Næst þar á eftir eru árásir þar sem árásaraðili nýtir fjölda vírussýktra tölva sem eru tengdar Internetinu til að senda afmarkaða árás á tilteknar þjónustur sem snúa að Internetinu, t.d. vefþjónustur. Þar er tilgangurinn yfirleitt að valda tekjutapi eða álitsmissi og er það gert með því að safna upp miklum fjölda tenginga við vefþjóna og koma í veg fyrir að hann geti sinnt eðlilegri umferð.
Allar nettengingar Vodafone eru varðar gegn magnárásum. Brugðist er sjálfkrafa við og stærð árásar minnkuð til að hún fylli ekki tengingar og viðskiptavinur geti sjálfur brugðist við með eigin búnaði t.d. eldveggjum. Einnig er brugðist sjálfkrafa við algengum afmörkuðum árásum og þær takmarkaðar.