Sýn gerir víðtækan samstarfssamning við Viaplay Group

Sýn og Viaplay hafa gert tímamótasamstarfssamning sem felur í sér einkarétt á sölu Viaplay með vörum Vodafone og Stöðvar 2 og tekur samningurinn gildi strax í ágúst.

Stöð 2 Sport mun um leið taka við sýningarrétti á öllum leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu til næstu ára og taka að sér alla framleiðslu á umfjöllun og umgjörð í kringum leikina. Fyrstu leikirnir sem falla undir samstarfið verða leikir Íslands í undankeppni EM 2024 gegn Lúxemborg ytra þann 8. september og Bosníu og Hersegóvínu á Laugardalsvelli þremur dögum síðar. Leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í streymi hjá Viaplay.

Mynd: Jack Guez/AFP/Ritzau Scanpix.

Stöð 2 Sport mun taka yfir framleiðslu á allri innlendri dagskrárgerð tengdri því íþróttaefni sem Viaplay hefur upp á að bjóða á Íslandi svo sem Meistaradeild Evrópu, Formúlu 1, Championship-deildinni og Carabao-bikarnum í Englandi, þýska fótboltanum, þýska handboltanum, landsleikjum í undankeppni EM karla, stórmótum í pílukasti og meira til. Samhliða þessum breytingum verður ný línuleg sjónvarpsrás kynnt til leiks til að hámarka upplifun áskrifenda á íþróttaefni Viaplay.

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar: „Það er virkilega ánægjulegt að við höfum náð þessu tímamóta samkomulagi við streymisveituna Viaplay. Við fögnum því að leikir karlalandsliðs Íslands séu komnir heim á Stöð 2 Sport. Við leggjum áherslu á að bjóða viðskiptavinum okkar fjölbreytt framboð af bæði innlendri og erlendri afþreyingu og er Viaplay með íþrótta- og sjónvarpsefni sem að fellur vel að vöruframboði Vodafone og Stöðvar 2. Samstarfið undirstrikar styrkleika okkar í að mæta þörfum viðskiptavina hvað varðar framúrskarandi upplifun, persónulegri þjónustu og betra aðgengi að hágæða sjónvarpsefni. Með samningnum við Viaplay munum við geta boðið viðskiptavinum Vodafone internet, farsíma ásamt meiri fjölbreytni í afþreyingu og íþróttaefni. Við hlökkum til samstarfsins og til þess að kynna betur þjónustuna fyrir viðskiptavinum.“

Mikael Olsson, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Viaplay Group:
„Undanfarin þrjú ár höfum við fest Viaplay í sessi sem efnisveitu á Íslandi, sérstaklega með tilliti til beinna útsendinga á íþróttaviðburðum. Við teljum það náttúrulegt skref í framhaldinu að hefja samstarf við fremsta fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki landsins. Sameining íþróttarétta, íþróttaframleiðslu og það að hafa Viaplay sem viðbót við áskriftarpakka Vodafone og Stöðvar 2 mun auka dreifingu veitunnar til muna og teljum við að samstarfið mun skila enn meiri ávinningi af fjárfestingum okkar til þessa.”

Nánari upplýsingar verða kynntar síðar.

 

 

Það er einfalt að koma yfir til Vodafone

Fáðu tilboð hjá okkur í síma, internet eða sjónvarp. Fyrir þig eða alla fjölskylduna. Besti díllinn gæti verið handan við hornið.