Vodafone

Truflanir á farsímasambandi á höfuðborgarsvæðinu og víðar

Vodafone
12.06.2020

Á undanförnum vikum og misserum hefur í vaxandi mæli orðið vart við truflanir á farsímasambandi á höfuðborgarsvæðinu sem tengist bilun í örbylgjuloftnetum. Loftnetin voru notuð til að dreifa Fjölvarpinu fram til 2017 þegar þeim útsendingum var hætt. Örbylgjuloftnetin eru enn víða á húsum og ef þau eru enn í sambandi við rafmagn veldur það truflunum á farsímasambandi í og við þau hús.

Athugið að hér er ekki verið að tala um UHF lotnet eða gömlu greiðurnar svokölluðu.

Dæmi um truflanir:
• Minni gæði á talsambandi farsíma
• SMS komast ekki til skila í fyrstu tilraun
• Símtöl ná ekki í gegn í fyrstu tilraun og þau slitna
• Streymi er hægt og höktir
• Almenn netþjónusta og gagnaflutningur er hægur

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur m.a. það hlutverk að vakta truflanir á fjarskiptum, taka við kvörtunum og grípa til aðgerða þegar þörf er á.

PFS í samstarfi við fjarskiptafélögin, Nova, Símann og Vodafone mun í júní og júlí standa fyrir átaki til að finna þessar truflanir, og vinna bug á þeim.

Örbylgjuloftnetin eru útbreidd á höfuðborgarsvæðinu s.s. í Vesturbænum, Fossvogi og á ákveðnum svæðum í Kópavogi og Hafnarfirði. Útsendingar Fjölvarpsins náðu einnig til Akraness, Selfoss og Reykjanesbæjar.

Talið er að allt að 20-30 þúsund loftnet geti verið að valda truflun og er verkefnið því viðamikið. Til að komast fyrir þessa truflun sem fyrst og á sem skemmstum tíma biðlum við til húseigenda á þessum svæðum að ganga í lið með okkur við að uppræta truflunina.

Það er hægt að gera með þeim einfalda hætti að kanna fyrst hvort örbylgjuloftnet sé að finna á húsum og ef svo reynist, þarf að finna út úr því hvort þau séu enn þá tengd rafmagni og taka spennugjafa þeirra úr sambandi ef svo er.

Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar PFS leggur áherslu á að stofnunin sé að leggja umtalsverðan tíma og viðbótar mannafla til verkefnisins, m.a. með því að ráða 6 sumarstarfsmenn til að sinna bilanaleit og verktaka til að aðstoða húseigendur við að aftengja búnað þegar þess er þörf.

PFS hefur sett upp sérstaka leiðbeiningasíðu á vef stofnunarinnar þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um búnaðinn og hvernig hann skal aftengdur.

Húseigendur eru hvattir til að skoða síðuna og deila henni áfram t.d. inn í hverfishópa á Facebook, íbúasíður og annars staðar þar sem íbúar á þessum svæðum eru líklegir til að sjá þessar upplýsingar.

Þá eru húseigendur/íbúar sem finna og aftengja búnaðinn hjá sér beðnir að láta Póst- og fjarskiptastofnun vita, ýmist í tölvupósti pfs@pfs.is, eða í gegnum skilaboð á Facebook síðu stofnunarinnar, en þar er einnig hægt að koma á framfæri spurningum sem ekki finnast svör við á leiðbeiningasíðu PFS.

Það er einfalt að koma yfir til Vodafone

Fáðu tilboð hjá okkur í síma, internet eða sjónvarp. Fyrir þig eða alla fjölskylduna. Besti díllinn gæti verið handan við hornið.