Við kynnum nýja Stöð 2 appið

Jens SigurðssonJens Sigurðsson
10.10.2018

#app #sjónvarp

Í dag kynnum við til leiks Stöð 2 appið fyrir iOS, Android, AppleTV og vafra á slóðinni sjonvarp.stod2.is.

Stöð 2 appið kemur í stað Vodafone PLAY sjónvarpsappsins sem hefur verið í boði fyrir alla landsmenn síðustu árin.

Þeir notendur sem eru með Vodafone PLAY fá uppfærslutilkynningu á næstu dögum og eftir uppfærslu mun forritið bera nafn Stöðvar 2. Notendanöfn og lykilorð haldast óbreytt og haldast notendur áfram innskráðir eftir uppfærsluna.

Efnisframboð Stöð 2 appsins verður sambærilegt við Vodafone PLAY: aðgengi að 26 sjónvarpsstöðvum, Frelsi sjónvarpsstöðvanna og áskriftarveitunum Stöð 2 Maraþon og Hopster.

Áfram verður hægt að varpa straumum yfir AirPlay og Chromecast fyrir þá sem eru með tæki sem styðja slíkt.

AppleTV og Vafraútgáfa bætast við sem dreifileiðir

Í dag opnum við síðan á tvær nýjar dreifileiðir fyrir viðskiptavini okkar. Útgáfu fyrir AppleTV og vafraútgáfu.

Notendur geta sótt sér Stöð 2 appið í Appstore í gegn um AppleTV 4 eða Apple TV4K, venslað tækið við áskriftina og innskráð sig með sama auðkenni og áður.

Á slóðinni sjonvarp.stod2.is má svo finna vafraútgáfu sem hægt er að njóta alls þess sama efnis og er í boði í gegn um símtækin og AppleTV.

Stöðugur vöxtur

Við höfum séð mikinn vöxt í notkun á sjónvarpsöppunum okkar síðustu misserin. Á þessu ári hefur virkum notendum fjölgað um helming sem og notkun á appinu margfaldast.

Við sjáum mikla aukningu í notkun á áskriftarveitunum Stöð 2 Maraþon og Hopster auk þess sem notkun á útsendingar sjónvarpsstöðva hefur vaxið ört. Við höfum því samhliða þessari aukningu verið að auka jafnt og þétt við efnisframboðið í appinu, bæði með ólínulegu efni og fjölgun sjónvarpsstöðva.

Notendaupplifun og stöðugleiki í fyrirrúmi

Við höfum lagt okkur fram um að notendaupplifun og stöðugleiki sé með allra besta móti. Einnig höfum við unnið að því að stórbæta myndgæði á sjónvarpsstreyminu. Við erum því mjög spennt að koma þessum nýjungum til ykkar í dag og vonum að þið hafið jafn gaman af því að nota þær og okkur þótti að búa þær til.

Góða skemmtun!