Hlegið dátt í Moskvu

Atli BjörgvinssonAtli Björgvinsson
22.06.2018

#bakhjarl #hm2018 #ksí #mið-ísland #vodafone

Oft hefur áhugi landsmanna verið mikill á íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og náði áhuginn áður óþekktum hápunkti á Evrópumeistaramótinu 2016. HM í Rússlandi slær allt annað út í þessum efnum og jafnvel hörðustu anti-sportistar hrífast með og fylgjast með ævintýri strákanna okkar frá degi til dags. Til að launa strákunum frábæra skemmtun ákváðu Vodafone og KSÍ í sameiningu að koma þeim á óvart með skemmtiatriði í heimsklassa.

Þrátt fyrir stjörnuljómann fylgir því allnokkurt álag að taka þátt í alþjóðlegu stórmóti af þessum toga og fylgja strákarnir stífri dagskrá frá morgni til kvölds og er öryggisgæslan í kringum þá mikil. Til að létta þeim lundina höfðu KSÍ og Vodafone samband við sprelligosanna í Mið-Íslandi sem slógu til án umhugsunar þegar þeir voru beðnir um að hoppa til Rússlands að skemmta strákunum.

Bergur Ebbi Benediktsson, félagi í Mið-Íslandi, sagðist hafa farið til Rússlands þótt hann hefði verið beðinn um að „smyrja samlokur“ fyrir strákana en Vodafone og KSÍ bauð Mið-Íslandi út á leik Íslands og Argentínu og í kjölfarið í heimsókn í herbúðir Íslands í Gelendzhik þar sem skemmtunin fór fram.

Hér má sjá stiklu frá ferð félaganna til Moskvu þar sem þeir kitluðu hláturtaugar dáðasta knattspyrnuliðs Íslandssögunnar.