Rekstur Vodafone gekk vel á árinu 2015 með stöðugum vexti í tekjum (+4%) og aukningu hagnaðar (+18%). Jákvæð þróun var á öllum helstu kennitölum og efnahagur mjög sterkur í lok árs.
Ötullega var unnið að uppbyggingu sjónvarpsþjónustu Vodafone á árinu 2015, innviðir styrktir og grunnkerfi efld. Útsendingar RÚV urðu alfarið stafrænar á árinu og er nú dreift til 99,9% íbúa landsins, um dreifikerfi sem Vodafone á og rekur. Á árinu kynnti Vodafone til sögunnar Vodafone PLAY, fyrstu íslensku áskriftarveituna fyrir alla fjölskylduna. Bresku efnisveiturnar Cirkus og Hopster, sú síðarnefnda sérhönnuð fyrir börnin, bættust einnig í efnisúrvalið.
Vodafone varð fyrst íslenskra fjarskiptafyrirtækja til að bjóða ferðamönnum, íslenskum sem erlendum, á leið um valin lönd háhraða 4G þjónustu vorið 2015. Umfang þjónustunnar jókst hratt og undir lok árs voru löndin þar sem þjónustan er í boði orðin 24 talsins - og þeim mun halda áfram að fjölga.
Vodafone veitir úrvals gagnaþjónustu yfir farsímakerfi (3G/4G) um allt land, auk öflugs sjósambands í kringum landið. Félagið er leiðandi á Íslandi í notkun hins langdræga 4G tíðnibands á 800MHz sem gefur viðskiptavinum félagsins framúrskarandi upplifun við notkun gagnaflutnings í farsímakerfunum. Með stöðugri eflingu og uppbyggingu dreifikerfis félagsins hefur áhersla einnig verið lögð á háhraðasamband á ferðamannastöðum og sjódekkun.